Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dagur segir heimili sitt hafa verið gert að skotskífu

Mynd: RÚV / Skjáskot
Líklega var skotið á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á bílastæði aftan við heimili hans. Hann segir að atvikinu fylgi erfiðar tilfinningar, hann og fjölskylda hans horfi aðeins öðru vísi út um gluggann nú en áður. Heimili hans hafi verið gert að skotskífu í myndbandi aðgerðahópsins Björgum miðbænum. 

Dagur var gestur í Silfrinu í morgun. Hann tók eftir gati á farþegahurð á bílnum um síðustu helgi og setti sig strax í samband við lögreglu sem tók bílinn til rannsóknar. Byssukúlur fundust inni í hurðinni og í kjölfarið gerði lögregla ráðstafanir við heimili fjölskyldunnar. Við nánari athugun reyndust kúlnagötin vera tvö.

„Það eru allar líkur á að það hafi verið á bílastæðinu fyrir aftan húsið heima, líklega aðfaranótt laugardags, hugsanlega aðfaranótt föstudags. En þetta er eitthvað sem er núna í höndum lögreglu að rannsaka. Við teljum okkur ekki hafa orðið vör við neitt,“ sagði Dagur.

Einhvern veginn ýtti maður þessu frá sér

Hann segir að viðbrögð sín hafi komið í skrefum. „Eitt er að kalla til lögreglu, sem maður gerir ekki á hverjum degi. Einhvern veginn ýtti maður þessu frá sér, meira að segja eftir að bíllinn var farinn til rannsóknar. Okkur verður ansi illa við þegar við fáum að heyra það á sunnudeginum að það hafi fundist kúlur. Svo kom það sjálfum mér á óvart að þegar ég stend frammi fyrir því að ræða þetta opinberlega á fimmtudeginum að á einhvern undarlegan hátt verður þetta ennþá raunverulegra.“

Dagur segir að eiginkona hans og börn hafi brugðist við af miklu æðruleysi. „En þessu fylgja auðvitað erfiðar tilfinningar. Þetta er óöryggi og álag og maður stendur sjálfan sig að því, og við öll, að horfa aðeins öðru vísi út um gluggann meðan það er óvissa í þessu öllu saman.“

Mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum

Dagur segir mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum. Málið sé til rannsóknar hjá lögreglu sem meti frá degi til dags hvort Dagur og fjölskylda hans þurfi á vernd að halda. „En það var sett lögregluvakt þarna um helgina meðan staðan var óljós,“

Dagur segir að hugsanlega hafi áreitni sem beinist að stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum ekki verið gefinn nægilegur gaumur. Þegar skotið var á skrifstofur Samfylkingarinnar hafi verið greint frá því þar sem þær séu nálægt íbúðahverfi. „Ég held að Samfylkingin hafi ekki haft neitt ráðrúm til að ákveða hvort yrði sagt frá því. Þá kemur á daginn að undanfarin tvö ár, alla vega, hafa verið viðburðir sem hafa átt sér stað við skrifstofur annarra stjórnmálaflokka. Ég er hugsi yfir því að það sé ekki tekið til umræðu og sett á borðið.“

Dagur segir að sér og fjölskyldu sinni hafi borist mikill stuðningur víða að. „En ég tek eftir því að fólk úr stjórnmálum og fjölmiðlum og víðar hefur haft samband og sagt sögu af því að hafa orðið fyrir hótunum. Kannski var í engu dæmi svona langt gengið eins og hjá okkur en flestar þessar frásagnir eiga sammerkt að það hefur verið ákveðið að segja ekki frá. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta. Ég held að það sé upplifun margra að harkan og stóryrðin séu meiri. Þau eru kannski líka sýnilegri út af samfélagsmiðlum og öðru. “

Við sjáum miklar skotgrafir myndast í pólitíkinni, það smitar út í opinbera umræðu og fer síðan að lita samskipti. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fólk láti sig þetta varða, tali um þetta og að við drögum einhvers konar línu í sandinn og ræðum hvernig samfélag við viljum vera.

Segir myndband hafa valdið sér óhug

Myndband aðgerðahópsins Björgum miðbænum, þar sem Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins er þulur, hefur verið til umræðu í þessu sambandi. Þar er heimili borgarstjóra sýnt og staðsetning þess sett í samhengi við framkvæmdir við Óðinstorg. Dagur segist ekki geta fullyrt um orsakasamhengi á milli myndbandsins og skorárásarinnar.

„Til þess vitum við ekki nógu mikið um þessa skotárás. Hins vegar sagði ég strax þegar farið var að keyra þetta á stærstu netmiðlum landsins að þetta ylli mér óhug. Ég var ekkert einn í fjölskyldunni um það. Okkur fannst þetta mjög óhugnanlegt. Mér fannst þarna verið að fara inn á alveg nýjar brautir í íslenskri pólitík, færa mörkin og gera heimili mitt að skotskífu. Þá grunaði mig ekki það sem núna gerðist.“