
Bretar hefja fríverslunarviðræður við Kyrrahafsríki
Umsóknin verður lögð fram ári eftir að Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu. AFP fréttastofan hefur eftir Boris Johnson, forsætisráðherra, að nú ári eftir útgönguna séu Bretar að mynda ný viðskiptatengsl sem eigi eftir að færa þjóðinni mikinn efnahagsvöxt. Með umsókninni að fríverslunarsvæði Kyrrahafsríkja sýni Bretar að þeir vilji eiga viðskipti á sem bestu kjörum við vina- og samstarfsþjóðir um allan heim, hefur AFP eftir Johnson.
Truss talaði sjálf fyrir því að Bretar gætu sótt um aðild að fríverslunarsvæðinu eftir að viðskiptasamningar náðust við bæði Japan og Kanada eftir útgönguna. Hún segir mikil tækifæri liggja í því að verða tólfta land fríverslunarsvæðisins. Það þýði til að mynda lægri tolla fyrir bíla- og viskýframleiðendur, ásamt auknum atvinnutækifærum heima fyrir.
Fríverslunarsvæðið nær til um 500 milljóna manna beggja vegna Kyrrahafsins. Það var formlega stofnað árið 2019, og á að vega upp á móti auknum efnahagsáhrifum Kína á heimsvísu. Bandaríkin voru meðal þeirra sem stóðu að stofnun fríverslunarsvæðisins í stjórnartíð Barack Obama. Þau drógu sig svo úr samkomulaginu í tíð Donald Trump, áður en það var fullgilt árið 2017.