Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bitist um bitana með lífið að veði í hundagerðinu

Mynd: EPA / EPA

Bitist um bitana með lífið að veði í hundagerðinu

31.01.2021 - 14:52

Höfundar

Í sögu Sofi Oksanen, Hundagerðið, segir frá tveimur konum sem hafa starfað hjá fyrirtæki sem stendur fyrir framleiðslu á eggjum og útgerð staðgöngumæðra í Úkraínu. Konurnar eru nú staddar í Helsinki, illa á sig komnar bæði á líkama og sál eftir að hafa gefið allt til að fólk, aðallega á vesturlöndum, geti fyrir peninga keypt sér að verða foreldri. Saga um það hvernig fólk reynir að verða sér úti um lífsviðurværi og framtíð í samfélagi sem hefur leysts upp og engin ný skipan komið í staðinn.

Sofie Oksanen er margverðlaunaður finnskur rithöfundur.  Fyrir tíu árum fékk hún Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína Hreinsun sem fljótlega kom út í íslenskri þýðingu og síðan hafa nýjar bækur Sofi komið jafnaðarlega út í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Það er hins vegar Erla E. Völudóttir sem þýðir nýju skáldsöguna Hundagerðið, sem gerist bæði í Úkarínu og í Finnlandi. Umfjöllunarefnið eru börn eða öllu heldur barneignir. Sumir geta ekki eignast börn en þrá það svo heitt að það hefur orðið til markaður þar sem að konur eru beinlínis gerðar út til þess ýmist að láta í té frjó egg úr eggjastokkum sínum eða láta frjóga þau með sæði úr svokölluðum sæðisbönkum, ganga með barnið til þess síðan að afhenda það þeim sem er reiðubúinn að að greiða fyrir.

Í skáldsögunni Hundagerðið, sem kannski er fjórða og síðasta bókin í fjórleik sem hófst með Hreinsun, rannsakar Sofi Oksanen enn aðstæður venjulegs fólks, ekki síst kvenna, á umbrotatímum þar sem samfélag hefur ekki getað komið sér saman um hvaða meginlínum verði fylgt í uppbyggingu þess, eins og raunin virðist vera í Úkraínu.

"Þetta er mikil ádeila á stéttskiptingu," segir Erla E. Völudóttir þýðandi bókarinnar. "Það eru þeir ríku sem geta notfært sér þjónustuna sem þessi fyrirtæki bjóða."

Í sögunni er hart deilt á fyrirtæki sem veita þessa þjónustu og leitast við að uppfylla allar óskir viðskiptavinanna varðandi útlit og gáfur barnsins sem verið er að falast eftir. Varan skal vera gallalaus. 

Líf og örlög kvenna á mörkum austurs og vesturs hafa verið umfjöllunarefni Sofi Oksanen öllum bókum hennar. Skáldsögurnar Hreinsun og Þegar dúfurnar hurfu gerast báðar að hluta til í Eistlandi en líka í þáverandi Sovétríkunum. Sögutíminn í báðum þessum bókum teygir sig allt aftur til fjórða áratugar síðustu aldar þegar Eistland var innlimað í Sovétríkin og fram yfir fall Sovétríkjanna með tilheyrandi upplausn og óöryggi fyrir milljónir manns lýðveldunum sem áður mynduðu Sovétríkin og máttu nú meira af vilja en mætti byggja upp eigin samfélag. Þessar umbreytingar komu ekki síst niður á konum og börnum en í báðum skáldsögunum sem hér voru nefndar segir frá konum sem í vegna aðstæðna sinna leiðast út í vændi. Hér er það hin hliðin á arðráni kvenlíkamans og ofbeldi gagnvart honum sem er til umfjöllunar sem og niðurlæging móðurhlutverksins í krafti auðs. Fyrst og fremst er þetta þó saga um tvær konur sem eins og aðrir reyndu að bjarga sér í umróti samfélags, sem er samtímis í upplausn og í mótun og spilling allsráðandi og er því kjörinn vettvangur fyrir þá sem peningana eiga til að hirða allt sem hugurinn girnist, sama þótt aðrir fórni bókstaflega öllu nema kannski lífstórunni.

Þótt umfjöllunarefni bókarinnar Hundagerðið sé nöturlegt er hér mjög áhugaverð skáldsaga á ferðinni um vináttu og væntumþykju, baráttu, vonir og þrár.