
Segja gjald á innflutta hráskinku hafa 29-faldast
Nú þurfa innflytjendur búvara að greiða útboðsgjald til að fá að flytja vörurnar inn án tolla. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að gjaldið hafi farið lækkandi um nokkurt skeið en eftir að reglunum var breytt um áramótin og eldri aðferð við að ákvarða gjöldin var tekin upp aftur, hafi það hækkað á ný. Það leiði til verðhækkana á matvöru.
„Ostakvótinn reyndar lækkar lítillega. En svo eru miklar hækkanir, til dæmis 65% hækkun á tollkvóta fyrir nautakjöt og 115% fyrir lífrænt alifuglakjöt. Til að fá að flytja inn parma- eða serrano-skinku 29-faldast útboðsgjaldið.“
Ólafur segir að hafi tilgangurinn verið að vernda íslenskan landbúnað hefði átt að beita öðrum aðferðum.
„Þessi aðgerð er rökstudd með því að hún sé hjálparaðgerð fyrir landbúnaðinn vegna kórónuveirufaraldursins. Hún sker sig hins vegar mjög úr flestum öðrum aðgerðum stjornvalda í þágu atvinnulífsins vegna þess að hún byggist ekki á beinum stuðningi við rekstraraðila í greininni heldur með því að skerða stöðu keppinauta greinarinnar,“ segir Ólafur.
Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands segir að tími hafi verið til kominn að breyta fyrra fyrirkomulagi, gjöldin hafi verið afar lág. „Og fyrir bragðið voru þeir sem buðu í tollkvótann að fá þetta á ansi lágu verði. Við höfðum miklar áhyggjur af því að ef fyrra útboðskerfi hefði verið haldið hefðu menn fengið þetta á 0 krónur og þá hefði samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar verið ansi erfið,“ segir Gunnar.