Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ríkislögreglustjóri fundar um skotárásir

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri fundar með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í næstu viku um öryggismál í kjölfar skotárása á húsnæði flokkanna.Hún segir alla verða að sameinast um að vinna gegn hatursorðræðu. 

Lögreglan greindi frá því í tilkynningu síðdegis að karlmaður á sextugsaldri hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhalds til mánudags á grundvelli rannsóknarhagsmuna í þágu rannsóknar lögreglunnar á skemmdum sem unnar voru á bifreið borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar á dögunum. Þá hafi annar karlmaður líka réttarstöðu sakbornings í málinu. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir ekki hægt að svara á þessari stundu hvort ofbeldi eins og þetta hafi færst í aukana. En að það sé mjög alvarlegt ef fólk sæti árásum við heimili sitt: 

„Þannig að fjölskyldan er undir líka og í rauninni tekur þessar ógnanir inn á heimilið. Og við munum náttúrulega eftir því í hruninu að þar var setið fyrir utan heimili stjórnmálafólks. Þannig að þetta er þetta er veruleiki sem enginn vill að verði viðvarandi. Við viljum geta átt lýðræðislega umræðu og það er hlutverk lögreglunnar líka að passa upp á að lýðræðið geti haft sinn gang saman ber það að við höfum hlutverk í mótmælum að halda friðinn og leyfa fólki og gefa því rétt á að mótmæla. Þannig að auðvitað tökum við þetta mjög alvarlega,“ segir Sigríður Björk. 

Nú er miðlæg deild lögreglunnar að rannsaka hvort skemmdarverk árin 2019 og 20 á húsnæði fjögurra stjórnmálaflokka tengist. Síðast var skotið á rúður skrifstofu Samfylkingarinnar. Mörg göt á rúðum og skemmdir sjást líka á gluggum á jarðhæð í Valhöll, húsi Sjálfstæðisflokksins. Á skrifstofu Pírata má sjá þrjú göt á rúðum en þau eru mun minni en á fyrrnefndu stöðunum. Kúlnagöt voru líka á gluggum skrifstofu Viðreisnar 2019 og fyrri hluta árs 2020 en búið er að skipta út rúðum. 

Hvað er hægt að gera í þessu eins og til dæmis það að koma í veg fyrir það á einhvern máta að það sé ráðist að heimilum eða fjölskyldum?

„Það er náttúrlega bara samfélagslegur sáttmáli. Við þurfum í raun að vera sammála um það að það sé ekki gert. Og svo þurfum við að upplýsa málin, taka þau alvarlega og fara strax í að rannsaka þau. Og þetta þurfa ekki að vera margir, þetta getur verið einn einstaklingur og þá er það spurning hversu langt við eigum að ganga í að herða allt aðgengi og tryggja öryggisráðstafanir þ.a. við þurfum að hafa alla myndina áður en við grípum við aðgerða. En við erum sem sagt að fara að hefja samtal við stjórnmálaflokkana líka núna bara í næstu viku þar sem við munum alla vega gefa ráð varðandi öryggismál og fara svona yfir stöðuna hvernig við getum tryggt hratt og öruggt útkall þannig að stjórnmálamenn upplifi sig örugga og geti þar með tekið þá umræðu sem þarf að taka.“

Varðandi tengsl hatursorðræðu til dæmis á samfélagsmiðlum og ofbeldisverka þá segir ríkislögreglustjóri að það sé afbrotafræðinga að svara því: 

„En auðvitað sjáum við líka þegar að við erum að rannsaka mál hvernig viðkomandi hefur verið að tjá sig. Þannig að það hefur alveg áhrif inn í rannsókn mála. Og svo náttúrulega auðvitað skiptir það máli að það sé ekki bara viðurkennt að hvað sem er megi.“

Katrín Jakobsdóttir sagði í formannsræðu á flokksráðsfundi Vinstri grænna í gær að samfélagið hefði viðurkennt hatursorðræðu gagnvart til dæmis einstökum stjórnmálamönnum og að mörkin hefðu færst til. 

„Já, ég þekki það nú bara af eigin raun líka,“ segir Sigríður Björk, „þannig að þeir sem eru í svona störfum mega búast við mjög óvæginni gagnrýni. Og þar eru oft mjög ljót ummæli látin falla eins og kemur reglulega í fjölmiðlum. En vandamálið er auðvitað það að eftir því sem við heyrum þetta oftar þá svona kannski hættir þetta að hreyfa við okkur og þetta verður meira norm. Þannig að við þurfum í rauninni að sameinast um að breyta því.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Á milli rúða á skrifstofum Samfylkingarinnar má sjá inn á milli glerbrota málmbrot úr skotfærum.