Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íshellan í Grímsvötnum ekki mælst hærri í 25 ár

30.01.2021 - 12:29
Grímsvötn
 Mynd: Atlantsflug - Ljósmynd
Hæð íshellunnar í Grímsvötnum hefur ekki verið hærri í tuttugu og fimm ár. Jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum segir að þrýstingur í kvikuhólfinu sé svipaður og síðast þegar gaus en jarðskjálftavirknin sé lítil. Síðasta árið hafa 13 jarðskjálftar mælst yfir fjórum á Reykjanesskaga. Vísindaráð almannavarna ræddi stöðuna á þessum eldstöðvum á síðasta fundi.

Í vor eru tíu ár frá síðasta Grímsvatnagosi og hefur eldstöðin þanist út nær stöðugt á þeim tíma. Grímsvötn er eina eldstöðin á Íslandi sem er á gulu-flug viðbúnaðarstigi. „Merki sýna að þrýstingur í kvikuhólfinu er svipaður eða meiri en var síðast þegar gaus. Vatnsstaðan í Grímsvötnum er hærri núna heldur hún hefur verið 1996. Við höfum séð það áður að eldgos hefjist í kjölfar jökulhlaupa. Við erum bara á tánum að ef jökulhlaup hefst að það kæmi ekki á óvart að eldgos kæmi í kjölfarið,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum situr í vísindaráði.

En það bendir ekkert til þess eins og staðan er núna? „Nei, það er búið að vera frekar lítil jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum. Ef hún fer að aukast núna á næstu vikum og mánuðum þá getum við sagt að við förum aðeins hærra upp á tærnar.“

Síðustu mánuði hefur meðal rishraðinn verið um tveir sentímetrar á dag en í sumar náði hann níu sentímetrum. Í byrjun október var snöggt, allt að 30 sentímetra ris, þá seig grunnur sigketill norðaustan við Grímsvötn um 10 metra samkvæmt mælingum.

Vísindaráð almannavarna segir vísbendingar um að rismiðjan sé nú austar en hún hefur verið lengst af. Þetta gæti þýtt að kvika safnist nú fyrir á nýjum stað, norður af Eystri Svíahnjúk. Þetta verður kannað betur á næstu vikum. 

13 jarðskjáfltar stærri en fjórir á Reykjanesskaga

Á fundi vísindaráðs var líka farið yfir stöðuna á Reykjanesskaganum, eins og flestir íbúar á suðvesturhorninu hafa fundið fyrir hefur verið óvenju mikil jarðskjálftavirkni þar síðasta árið. Í heildina hafa fundist 13 jarðskjálftar stærri en fjórir. Stærsti skjálftinn var upp á 5,6 vestan við Krýsuvík 20. október. Áberandi lítil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu austan við Kleifarvatn að Þrengslum og því ekki hægt að útiloka að spenna sé að safnast þar upp.

Stærstu skjálftarnir á Reykjanesskaga hafa orðið við Brennisteinsfjöll og verið allt að 6,5 að stærð. Ef slíkur skjálfti yrði myndi hann finnast vel á höfuðborgarsvæðinu.