Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvorki þingfundir á mánudögum né föstudögum

30.01.2021 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Vinnuvika þingmanna breytist með nýju skipulagi sem tekið hefur verið upp á störfum þingsins. Hér eftir verða ekki þingfundir á mánudögum heldur verða þeir fyrst og fremst notaðir til nefnafunda og þingflokksfunda. Hefja á þingfundi fyrr en áður þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudag, klukkan eitt, og er það gert í von um að þingfundum ljúki fyrr á daginn.

Hvorki verða þingfundir né nefndafundir á Alþingi á föstudögum, fyrir utan þrjá sem er nú þegar að finna í starfsáætlun. Þetta er hluti af tilraunaverkefni þingsins í tengslum við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar. Það er í gildi til páska.

Forseti Alþingis og formenn þingflokka komust að samkomulagi um að gera þessa tilraun á breyttri skipun vinnuvikunnar. Gert er ráð fyrir að nefndafundir standi milli níu og ellefu og aftur frá þrjú til fimm á mánudögum, þar í milli séu þingflokksfundir klukkan eitt.

Engir fundir verða í fastanefndum á miðvikudögum en þingflokksfundir verða milli hálf ellefu og tólf. Hægt er að halda fundi fyrr um morguninn í alþjóðanefndum og öðrum þinghópum sem hittast af og til.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV