Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Endurreisa NASA í upprunalegri mynd

30.01.2021 - 19:51
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Endurbygging NASA, eins vinsælasta tónleikastaðar landsins, er vel á veg komin. Til stendur að halda þar ráðstefnur, árshátíðir og tónleika að nýju.

NASA við Austurvöll var um langt árabil einn vinsælasti tónleika- og skemmtistaður landsins. Tónleikahaldi var hætt 2012 og var salurinn þá í mjög slæmu ástandi. Til stóð að rífa hann en þeim áformum var mótmælt, enda þótti NASA vera einn mikilvægasti tónleikasalurinn á landinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, friðlýsti NASA eftir þau mótmæli. Salurinn var samt sem áður rifinn 2018. 

Sögufrægur staður

Nú er hins vegar byrjað að endurreisa NASA og er sú vinna nokkuð vel á veg komin. Það ætti því að styttast í að hægt verði að halda þar ráðstefnur og jafnvel tónleika að nýju. Endurbyggingin er hluti af byggingu nýs hótels á Landssímareitnum og fasteignaþróunarfélagið Lindarvatn stendur að framkvæmdinni. Icelandair hótel sjá svo um að reka bæði hótelið og salinn.

„Þetta er mjög sögufrægur staður og mikilvægur fyrir tónlistarlíf í miðborginni. Við erum að byggja hann upp aftur í upprunalegri mynd, með nýjustu tækni í hljóðvist og hljóðhönnun en allt form og útlit og tilfinning á að minna á salinn eins og hann var áður en honum var lokað á sínum tíma,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.

Gengur saman

Almennt fara háværir tónleikar og sofandi hótelgestir ekki vel saman, en við endurreisn NASA á að reyna að tryggja að sem minnst hljóð leki út.

„Við erum með hefðbundið burðarvirki sem er fyrir salinn hérna, og svo erum við með box sem er utan um salinn, sem er hérna. Og þetta gengur svona utan um salinn. Og þetta er til þess að fá hljóðvistina úr tónleikasalnum í lagi þannig að þetta gangi saman, tónleika- og ráðstefnustarfsemi innan um hótelgesti,“ segir Jóhannes.

Samkvæmt svörum frá Icelandair hótelum stendur til að nýta salinn undir margs konar mannfagnaði líkt og áður, þar á meðal tónleika. Ef allt gengur að óskum verður salurinn tilbúinn í haust.