Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

210 tilkynnt um aukaverkanir eftir COVID-bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Lyfjastofnun hefur borist 210 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. 12 þeirra eru skilgreindar sem alvarlegar. 141 tilkynning, þar af 11 alvarlegar, eru vegna Comirnaty, bóluefnis Pfizer/BioNTech og 69 tilkynningar, þar af ein alvarleg, eru vegna bóluefnis Moderna.

Þetta kemur fram á vefsíðu Lyfjastofnunar.

Eftir að stofnuninni hafði borist fimm tilkynningar um andlát aldraðra með undirliggjandi sjúkdóma sem höfðu fengið bóluefni Pfizer voru tveir sérfræðilæknar fengnir til að rannsaka tengslin á milli bólusetninganna og andlátanna. Sú rannsókn leiddi í ljós að í fjórum tilfellum var ekki eða mjög ólíklegt að um orsakatengsl væri að ræða.

Í einu tilfelli var ekki hægt að útiloka þau, en leitt að því líkum að undirliggjandi sjúkdómur hefði verið áhrifaþáttur.