Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sviðsetning benti til sektar: Á sér engar málsbætur

29.01.2021 - 19:06
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Arturas Leimontas, Lithái á sextugsaldri, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að hafa orðið landa sínum að bana í Úlfarsárdal í desember 2019. Dómurinn telur að hann eigi sér engar málsbætur. Framburður hans hafi verið ótrúverðugur og sviðsetning bent sterklega til sektar hans. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Leimontas var ákærður fyrir að hafa kastað hinum 58 ára gamla Egidijus Buzelis fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlishúss við Skyggnisbraut í desember 2019.  Leimontas sat í gæsluvarðhaldi í einn og hálfan mánuð en var sleppt af Landsrétti vegna óvissu sem dómurinn taldi ríkja um atburðarásina. Hann hefur því verið frjáls maður í eitt ár, en sætt farbanni.

Vildi vita af hverju lögreglan eyðilagði afmælið sitt

Lögreglan fékk tilkynningu sunnudaginn 8. desember um að maður hefði fallið fram af svölum íbúðar á þriðju hæð við Skyggnisbraut.  Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang sáu þeir að ölvaður maður hefði komið út á svalir íbúðar á þriðju hæð. Var talið nauðsynlegt að fara inn í íbúðina til að tryggja að sönnunargögnum yrði ekki spillt.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi þurft að brjóta sér leið inn í íbúðina þar sem fyrir voru fjórir ölvaðir karlmenn frá Litháen. Þeir voru allir handteknir.

Leimontas hafði verið handtekinn skömmu áður við innganginn. Hann var einnig mjög ölvaður og með áverka á andliti og höndum. Í dómnum segir að hann hafi verið æstur og erfiður viðureignar í fangaklefa.

Nokkra lögreglumenn hafi þurft til að halda honum á meðan gerð var á honum bráðabirgðalíkamsrannsókn. 

Hann hafi síðar talað mikið um að hann hefði verið að halda upp á 50 ára afmælið sitt og krafist þess að vita hvers vegna lögreglan hefði eyðilagt afmælisfagnaðinn.

Eitt vitni sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að Leimontas hefði verið mjög stressaður þegar hann kom einn inn af svölum íbúðarinnar eftir að hafa farið þangað út ásamt landa sínum. Hann hafi gengið fram og til baka í stofunni og síðan náð í áfengisflösku. Vitnið orðaði það þannig að Leimontas hefði hagað sér eins og hann hefði gert eitthvað.

Umfangsmikil rannsókn

Verjandi Leimontas krafðist sýknu þar sem sakirnar væru ósannaðar. Ekki væri útilokað að Buzelis hefði fallið fram af svölunum af öðrum völdum en að honum hefði verið hrint eða kastað.

Rannsókn málsins var afar umfangsmikil. Prófessor í vélaverkfræði var fenginn til að gera greiningu á falli brotaþola fram af svölunum eftir að lögreglan hafði sviðsett vettvanginn og kastað brúðu í mannslíki úr sömu hæð og fram af jafn háu handriði. Í dómnum kemur fram að alls hafi verið gerðar átta tilraunir til að líkja eftir fallinu með gínu sem var að sömu stærð og þunga og Buzelis.  

Hann taldi útilokað að maðurinn hefði oltið eða fallið fyrir slysni og ólíklegt væri að hann hefði stokkið fram á svölunum.  Niðurstöður sviðsetningarinnar sýndu einnig að maður eins og Leimontas gæti hafa kastað Buzelis fram af svölunum. 

Í krufningu kom í ljós að Buzelis var með innkýlt brot í höfuðkúpu. Réttarlæknir taldi það ótengt áverkum vegna fallsins af svölunum heldur gæti það bent til þess að Buzelis hefði verið sleginn í höfuðið skömmu áður með einhverju áhaldi.  Réttarlæknirinn komst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að Buzelis hefði fallið fyrir slysni.

Verkfræðingur sem var kallaður til sagði afar ósennilegt að Buzelis hefði oltið fram af svölunum án utanaðkomandi krafts því þá hefði hann lent nær svölunum. 

Á sér engar málsbætur

Í dómnum segir meðal annars að framburður ákærða hafi verið ótrúverðugur. Þá hafi sviðsetning atburðarins bent sterklega til þess að hinn látni hefði ekki getað fallið þá vegalengd sem hann féll af sjálfsdáðum, heldur hefði annar þurft að beita krafti til þess að koma honum jafnlangt frá svalaveggnum og raunin varð.

Það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að Leimontas hafi orðið þess valdandi að hinn látni féll fram af svölunum, úr tæplega sjö metra hæð. Ljóst sé að Leimontas hafi verið mjög ölvaður þegar atvikið átti sér stað, sem leysi hann þó ekki undan refsiábyrgð.

Honum hafi mátt vera ljóst að langlíklegast væri að dauði myndi hljótast af því að kasta manni sjö metra niður á steyptan pall. Hann eigi sér því engar málsbætur.

Áfrýjað til Landsréttar

„Já það er sakfellt og refsingin 16 ára fangelsi þannig að það er í rauninni eins og ákæruvaldið lagði upp með, allavega varðandi sakfellinguna,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

Verjandi Leimontas upplýsti strax eftir uppkvaðningu dómsins að honum yrði áfrýjað til Landsréttar. Eftir dóminn var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. júní.

„Það er sá tími sem má ætla að málið taki í meðferð Landsréttar,“ segir Kolbrún.