Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórnmálamenn fá alveg ótrúlega holskeflu af viðbjóði

Mynd: RÚV / Samsett mynd
Skotárásir á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og á skrifstofur stjórnmálaflokka eru ein birtingarmynd stjórnmálamenningar sem hefur þróast undanfarin misseri. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessari þróun; farið hefur verið yfir mörk sem hingað til hafa verið virt. Áreitni í garð stjórnmálafólks hefur verið falinn vandi sem tímabært er að ræða. Þetta segja þær Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi Viðreisnar.

Þær voru gestir í Síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag.

„Manni er auðvitað mjög brugðið. Ég get rétt ímyndað mér ef þetta hefði komið fyrir bíl fjölskyldu minnar eða einhversstaðar nærri heimili mínu Maður hugsar fyrst og fremst um börnin sín og að skapa þeim öruggt umhverfi og þá vill maður ekki vera að flækja þessu pólitíska starfi við friðhelgi heimilisins,“ sagði Hildur. „Mér finnst þetta kristalla einhverja stemningu sem við þurfum aðeins að bregðast við, fara ofan í kjölinn og spyrja; hvert erum við að fara með þetta?“

Þórdís sagði að þessi umræða væri löngu tímabær.

„Það var skotið á 3-4 skrifstofur flokkanna og oftar en einu sinni.  Það situr svolítið í manni; afhverju erum við ekki löngu farin að tala um þetta?“

Þórdís sagði að Dagur hafi, líkt og aðrir kjörnir fulltúar, hvorki leynt fjölskylduhögum sínum né hvar hann býr. Hingað til hafi ekki þótt ástæða til slíks. Myndband sem deilt var á samfélagsmiðlum, þar sem dreginn er fram kostnaður við Óðinstorg í nágrenni við heimili borgarstjóra, hefur verið til umræðu í þessu sambandi. Þar er meðal annars sýnt upptaka úr dróna sem flýgur yfir svæðið og sýnir heimili Dags. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins talar inn á myndbandið. Hildur sagðist ekki vilja fullyrða um að beint samband sé á milli myndskeiðsins og þessara atburða.

„En þetta er partur af einhverri orðræðu, þar sem einhverjum hefur þótt í lagi að draga heimilisföng kjörinna fulltrúa inn í opinbera umræðu sem mér finnst að við ættum að setja algjört bann við.  Þetta er eitthvað sem hefur verið gegnumgangandi á þessu kjörtímabili, heimili borgarstjóra og hans heimilisfang,“ sagði Hildur.

Hildur sagði að þetta væri hluti af stjórnmálamenningu þar sem fólk væri gert tortryggilegt og reiði gegn pólitískum andstæðingum væri mögnuð upp. „Ég finn þetta mjög vel í borgarstjórn . Það kom mér mjög á óvart þegar ég byrjaði i borgarstjórn; það var svo mikil reiði allsstaðar,“ sagði Hildur.

Farið yfir línu sem ekki hefur verið farið yfir áður

Þórdís Lóa sagði ómögulegt að segja til um hvort myndbandið hefði skipt máli í þessu sambandi. „En mér finnst þetta bara mjög alvarlegt mál. Við erum komin á einhvern stað þar sem þetta er að gerast í litlu Reykjavík. Mér finnst þetta vera á þeim mælikvarða núna að við getum ekki setið og gert ekki neitt. Þetta fer yfir einhverja línu sem við höfum ekki farið yfir áður.“

Þórdís og Hildur voru sammála um að taka þyrfti málið upp á vettvangi borgarstjórnar og á öðrum pólitískum vettvangi. Atvik sem þessi fengju fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en það hæfi stjórnmálaþátttöku. Facebookfærsla Ólafs Guðmundssonar, varafulltrúa Sjálfstæðisflokks, um málið þar sem sagði að borgarstjórinn þyrfti bara að „taka því“ að byltingin væri „komin heim“ og því beint því til Dags að „byrja á sjálfum sér“ væri bæði ógeðfelld og af ofbeldisfullum meiði, eins og Hildur komst að orði.

Hildur sagði að þetta væri falinn vandi.

„Stjórnmálamenn fá alveg ótrúlega holskeflu af viðbjóði yfir sig, sem aldrei kemst upp á yfirborðið. Ég hef fengið nafnlaus ógeðfelld bréf heim til mín. Ráðleggingarnar sem maður fær eru: ekki segja neinum frá þessu. Láttu þetta liggja,“ sagði Hildur. 

Þórdís Lóa sagðist heyra víða að þetta væri óhjákvæmilegur fylgifiskur stjórnmálanna, sumir stjórnmálamenn kölluðu svona hegðun yfir sig. Ekki ætti að sýna svona hegðun neitt umburðarlyndi. Nýta mætti þetta tækifæri til að ræða hvernig haga mætti kosingabaráttunni í komandi þingkosningum. „Förum í boltann en ekki í manninn,“ sagði Þórdís Lóa.