Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smuga setti met á árinu 2020 – mjólkaði tæp 15 tonn

Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd: Þórdís Halldór - RÚV
Nythæsta kýr landsins á árinu 2020 var kýrin Smuga frá Ytri- Hofdölum í Skagafirði. Smuga mjólkaði alls 14.565 kíló af mjólk á árinu 2020 og hefur engin kýr mjólkað svo mikið á einu ári hér á landi. Hún hefur á sinni ævi mjólkað tæplega 68 tonn af mjólk.

Þetta kemur fram í Bændablaðinu í gær.  Smuga hefur borið sex kálfum um ævina, en hún fæddist á Skúfsstöðum í Hjaltadal en var keypt að Ytri Hofdölum eftir að hún bar sínum fyrsta kálfi. Önnur nythæsta kýr landsins var kýrin Ösp frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi og sú þriðja afurðahæsta er kýrin Merlin frá bænum Lambhaga á Rangárvöllum. 

Þó svo að Smuga hafi mjólkað um 68 tonn á sinni ævi á hún enn töluvert langt í land með að ná íslandsmeti í æviafurðum, en það met á kýrin Mókolla frá Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, en hún mjólkaði 114.635 kg af mjólk á sinni ævi. Af núlifandi kúm hefur kýrin Flækja frá Viðborðsseli mjólkað mest á sinni ævi eða 91.803 kg.

Lítill samdráttur í mjólkurframleiðslu þrátt fyrir heimsfaraldur

Í yfirlitstölum frá Samtökum afurðastöðvar í mjólkuriðnaði voru framleiddir um 151 milljónir lítra af mjólk hér á landi á árinu 2020, sem er 0,4 prósent samdráttur frá árinu 2019. Heldur minna var selt af mjólk, osti og sýrðum vörum, en heldur meira af rjóma. Helsta ástæða samdráttar í sölu er rakin til ferðamannafæðar og samdráttar í samfélaginu almennt. 

Á hverju kúabúi er haldið skýrsluhald utan um nyt og afurðir hvers grips. Hæsta meðalnyt á hverja kú á árinu 2020 var á bænum Búrfelli í Svarfaðardal. Nyt eftir hverja kú var 8.579 kíló og jókst meðalnytin um rúm 600 kíló á milli ára á bænum. Í öðru sæti situr Hurðarbak í Flóahreppi með meðalnyt upp á 8.445 kg á hverja árskú og í þriðja sæti Hraunháls í Helgafellssveit á Snæfellsnesi með meðalnyt upp á 8.357 kíló á hverja árskú. 

Í yfirliti Landsambands kúabænda kemur einnig fram að meðalbústærð kúabúa sé nú 48,4 kýr á hvert bú og að meðalnyt búa sé 6384 kg sem er 50 kílóum meira en árið 2019. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV