Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir mikilvægt að orkuverð séu opinberar upplýsingar

29.01.2021 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Trúnaði hefur verið aflétt af samningi Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls um verð á raforku til álvers Norðuráls á Grundartanga. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir birtingu slíkra upplýsinga vera í almannaþágu.

Þetta er fyrsti samningurinn af þessu tagi sem er birtur opinberlega, en hann var upphaflega gerður um kaup á 47,5 megavött árið 2006 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Þegar ekki varð af því, var rafmagnið notað í álveri Norðuráls á Grundartanga.

Orkuveitan vildi að samningurinn yrði gerður opinber árið 2010, en það vildi Norðurál ekki og taldi að það hefði skaðleg áhrif á samkeppni. Nýlega óskaði Norðurál síðan eftir því að trúnaði yrði aflétt. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir mikilvægt að upplýsingar um raforkuverð til stóriðju séu opinberar.

„Vegna þess að umræðan er búin að hverfast mjög um þetta í áratugi. Og þetta eru mjög stórir samningar við álverin. Og það má líka geta þess að orkufyrirtækin eru flest í almannaeigu, þannig að upplýsingar um þessa samninga eru bara af hinu góða að mínu mati,“ segir Bjarni.

Hvað með samninga við aðra stórnotendur rafmagns? Verða þeir opinberaðir á sama hátt? „Nei, þeir eru allt annars eðlis, miklu minni og til skemmri tíma. Eina álverið sem við seljum rafmagn er Norðurál.“

Samningurinn gildir til ársins 2036.Hann er beintengdur við álverð sem hefur þróast á annan hátt og gert var ráð fyrir þegar samningurinn var undirritaður og er nú talsvert lægra en búist hafði verið við. Norðurál greiðir nú rúma 25 bandaríkjadollara fyrir megavattstundina, en gert hafði verið ráð fyrir að það yrði um 36 dollarar. Þá er flutningsgjald innifalið í samningsverðinu við Norðurál þannig að OR hefur borið alla áhættu af þróun flutningskostnaðar. 

„Þannig að það breytir öllu um arðsemi samningsins,“ segir Bjarni. „Þessi samningur er barns síns tíma og hefur reynst Orkuveitu Reykjavíkur afar óhagstæður.“