Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir árásina setja öryggismálin í nýtt samhengi

29.01.2021 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
„Um leið og þetta mál kom upp um síðustu helgi þá var farið í miklar öryggisráðstafanir. Aðallega sem tengjast borgarstjóra og einnig hér í ráðhúsinu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson borgarritari í samtali við fréttastofu. Dómsmálaráðherra segist eiga í samtali við ríkislögreglustjóra um hertar öryggisráðstafanir í kringum kjörna fulltrúa.

Þorsteinn segir að ákvarðanir um öryggisráðstafanir hjá borginni séu teknar í samráði við lögreglu.

Hafið þið skoðað myndbandsupptökur í kringum ráðhúsið og orðið vör við grunsamlegar mannaferðir?

„Það er allt undir og rannsóknin er á viðkvæmu stigi. Svo það er best að ég tjái mig sem minnst um það,“ segir hann. „En við erum búin að slá skjaldborg um borgarstjóra,“ segir Þorsteinn. 

Hvað með aðra kjörna fulltrúa?

„Já, það er í skoðun. Þetta er komið á stig sem engan óraði fyrir og þetta setur öryggismálin í allt annað samhengi. Þess vegna erum við á fullu að skoða þau mál betur,“ segir Þorsteinn.

 

Dómsmálaráðherra segir málið vekja óhug

„Þetta vekur óhug og það þarf að grandskoða þetta mál. Það er í forgangi og litið alvarlegum augum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttastofu. Þegar hún er spurð hvort það komi til greina að herða öryggisráðstafanir í kringum kjörna fulltrúa í landinu segist hún hafa rætt það við ríkislögreglustjóra fyrr í vikunni og að það samtal haldi áfram.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Við viljum tryggja að stjórnmálamenn eins og aðrir eigi öryggi heima hjá sér. Það er algjört lykilatriði, við höfum séð þetta gerast áður en við viljum alls ekki að þróunin sé í þessa átt,“ segir Áslaug.