Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sameiginleg ákvörðun að Ólafur víki úr þremur ráðum

29.01.2021 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Guðmundsson - Facebook
Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, víkur úr þeim ráðum Reykjavíkurborgar sem hann hefur átt varamannasæti í vegna færslu sem hann birti um Dag B. Eggertsson borgarstjóra á Facebook í gærkvöldi. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir að með því vilji flokkurinn sýna að hann taki mál sem þetta alvarlega og Ólafur segir að ákvörðunin sé sameiginleg.

„Það sem við Sjálfstæðismenn gerum“

„Þetta var sameiginleg ákvörðun. Úr því að maður gerði þessi mistök, sem ég er búinn að biðjast afsökunar á. Ég vildi bara axla ábyrgð og það er það sem við Sjálfstæðismenn gerum. Það er rétt að gera það. Þetta var bara ákveðið í símanum, ég taldi þetta bara rétt,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Í færslu Ólafs, sem fjallaði um skotárás á bíl borgarstjórans, sagði að borgarstjórinn þyrfti bara að „taka því“ að byltingin væri „komin heim“. Hann gaf í skyn að Dagur þyrfti að „byrja á sjálfum sér“. Ólafur sagðist í samtali við fréttastofu í morgun hafa gert mistök. Hann sagðist hafa sent Degi afsökunarbeiðni en Eyþór Arnalds sagði í morgun að ummælin væru ólíðandi.

Ræddu málið á forsætisnefndarfundi

Eyþór segir að málið hafi verið tekið fyrir á fundi forsætisnefndar sem lauk nú um hádegi. Svo hafi verið ákveðið að Ólafur myndi víkja úr skipulags- og samgönguráði, öldungaráði og innkaupa- og framkvæmdaráði Reykjavíkurborgar og að því yrði aftur kosið í ráðin á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn. 

Ólafur verður áfram varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins: „Að sjálfsögðu,“ segir Ólafur. „Já, hann er kjörinn til fjögurra ára,“ segir Eyþór. „En við sem flokkur stöndum fyrir því að heimilið sé öruggur staður og umræðan hófstillt. Það er mikilvægt að við séum laus við ofbeldisógn,“ bætir hann við.