Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ræddu bætt samskipti ESB og Bandaríkjanna

29.01.2021 - 03:49
epa08969426 US Vice President Kamala Harris, not pictured, swears-in Antony Blinken, US secretary of state, during a ceremony at the White House in Washington, DC, USA, 27 January 2021.  EPA-EFE/Stefani Reynolds / POOL
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Þeir Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, og Antony Blinken, nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddu í gær leiðir til þess að endurreisa og laga sambandið á milli þeirra. Í yfirlýsingu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu segir að Blinken hafi lýst þakklæti sínu til Borrell fyrir leiðtogahlutverk ESB undanfarin ár.

Borrell bauð Blinken að taka þátt á fundi utanríkisráðherra ESB ríkjanna á næstunni. Borrell lagði jafnframt áherslu á að styrkja marghliða samvinnu ríkja og reglur alþjóðasamfélagsins. Þá hyllti hann ákvörðun núverandi Bandaríkjastjórnar um að koma aftur að Parísarsáttmálanum um loftslagsmál og gerast aftur aðili að Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

Miðað við yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins verður áfram haldið harðri stefnu gegn uppgangi Kína. Þar segir að embættismennirnir hafi rætt um samstarf Bandaríkjanna og ESB í málefnum er varða Kína. ESB sagði í sinni yfirlýsingu að þeir hafi rætt um ýmsar sameiginlegar áskoranir í utanríkis- og öryggismálum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV