Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólafur Guðmundsson: „Þetta voru bara mistök“

29.01.2021 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta voru bara mistök,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um umdeilda færslu sem hann birti á Facebook í gærkvöldi um skotárásina á bíl Dags B. Eggertssonar. Í færslunni sagði að borgarstjórinn þyrfti bara að „taka því“ að byltingin væri „komin heim“. Hann beindi því til Dags að „byrja á sjálfum sér“.

Færslan, sem Ólafur hefur nú eytt, hefur verið harðlega gagnrýnd á Facebook og Twitter og Hildur Björnsdóttir, varaoddviti flokksins í Reykjavík, er meðal þeirra sem hefur fordæmt ummælin. Þá spurði Heiða Björg Hilmisdóttir, varaoddviti Samfylkingarinnar í borginni, hvað það væri sem Ólafur reyndi að kalla fram með færslunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook

„Þetta voru bara mistök, þetta var óheppilegt,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu um Facebook-færsluna. Aðspurður segist hafa beðið borgarstjóra afsökunar. „Ég er búinn að senda honum, og er að leita að númerinu hans til að hringja í hann,“ segir hann. 

„Þetta var í gærkvöldi rétt áður en ég fór að sofa. Þetta er auðvitað eðli Facebook og maður getur gert mistök,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki verið búinn að átta sig á alvarleikanum.  „Menn hafa verið að gera skemmdarverk, en það er auðvitað þannig að þetta er gengið of langt,“ segir Ólafur. „Ég var eiginlega búinn að gleyma þessu þegar ég vaknaði í morgun en sá þá viðbrögðin við þessu og tók þetta út. Þetta var alls ekki í lagi,“ segir hann.

Greint var frá því í gær að skotför hefðu fundist í bílhurð á fjölskyldubíl borgarstjórans í síðustu viku. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur málið til rannsóknar.