Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Norðmenn loka landamærum að mestu

Mynd: EPA-EFE / NTB SCANPIX
Norðmenn hafa lokað landamærum sínum að mestu í von um að nýtt kovid-19 smit berist til landsins með farandverkafólki. Eftirlit við landamærin og á flugvöllum þykir hafa brugðist nú í janúar. Á sama tíma eru miklar takmarkanir á ferða- og samkomufrelsi fólks í 25 sveitarfélögum í og við höfuðborgina Ósló.

Þriðjungur þeirra sem koma til vinnu frá Pólland og Litháen hunsa sóttkví og skimun

Stjórnarandstaðan bæði til hægri og vinstri hefur frá því fyrir jól krafist þess að eftirlit við landamæti verði hert. Ríkisstjórnin hefur að hluta fylgt þeim ráðum en samt ekki með fullnægjandi hætti, að mati gagnrýnenda.

Allt að þriðjungur þeirra sem sækja vinnu í Noregi frá Pólandi og Litháen hefur farið í gegnum eftirlit við landamærin án þess að fylgja tilmælum um skimun og án þess að fara í sóttkví. Þetta hefur leitt til þess að ekki er vitað um upphaf allt að 6000 tilfella af Covid-19 í landinu frá því um áramót.

Lokun í tvær vikur

Því var ákveðið að loka landamærunum að mestu. Erna Solberg forsætisráðherra orðar þetta svo að í reynd verði landamærin lokuð öðrum en þeim sem eiga heimili í Noregi en þó með fáeinum undantekningum sem varða ferðir sem nauðsyn krefur. Þessar reglur eiga að gilda næstu tvær vikur. Þá verða þær endurskoðaðar en samt má reikna með miklum takmörkunum enn lengur. Almenn ferðalög og heimsóknir verða að bíða.

Þetta snertir komu farandverkafólks, sem samkvæmt hefð kemur til að fara á vetrarvertíð í Norður-Noregi. Einnig leita skipasmiðjur hér til lands mjög eftir iðnaðarmönnum frá Pólandi. Þeir fá ekki að koma. Og svo kemur reglulega fjöldi byggingaverkamanna í tímabundna vinnu.

Heill hópur smitaðra smaug í gegn

Það var einmitt hópur 26 iðnaðarmanna frá Pólandi, sem ráðnir voru til að gera upp skrifstofubygginu í Osló, sem leiddi til skyndiaðgerða ríkisstjórnarinnar. Allir höfðu sloppið í gegnum eftirlit athugasemdalaust og allar í hópnum voru smitaðir.

Að hluta má einnig rekja strangar aðgerðir nú til tregðu við að greina sýni. Til þessa hafa nær öll sýni aðeins verið greind lauslega til að finna út hvort þar er Kóvid-19 veira á ferðinni eða ekki. Þetta hefur ekki ná til greiningar á hvort veiran er af breska afbriðinu eða einhverju öðru. Fyrir vikið hefur ekki verið hægt að rekja ferðir breska afbrigðisins á Óslóarsvæðinu og næsta nágrenni.

Breska afbrigðið greindist á hjúkrunarheimili

Þegar hertar aðgerðir voru kynntar sagði Line Vold hjá Lýðheilsustofnunni norsku að aðeins Íslendingar hefðu náð að greina öll sýni fullkomlega:

Hvorki við né nokkur önnur þjóð hefur gert það, nema að Íslendingar hafa náð að greina allt, sagði Line Vold. Núna á að nýta tvær næstu vikur til að auka eftirlitið svo hægt verði að greina öll sýni strax.

Þarna hefur verið flöskuháls. Sýni sem voru tekin fyrir áramót, til dæmis á hjúkrunarheimili í Nyrðri-Follo-hreppi reynast nú vera með breska afbrigðinu. Því var í skyndi gripið til víðtækra lokana og takmarkana á samkomum fólks. Þó er margt sem bendir til að hér sé of seint farið af stað því sýnin voru fjögurra vikna gömul. Því hefur verið gripið til þess ráðs að láta hertar aðgerðir ná til 25 sveitarfélaga og þær varða um eina og hálfa milljón Norðmanna.

Almennar aðgerðir hafa samt takmarkað úbreiðslu

Þó er lán í óláni að hinar almennu aðgerðir til að hindra smit, svo sem að hafa grímu, forðast mannfjölda, sleppa utanlandsferðum og þvo hendur sínar reglulega hafi takmarkað útbreiðslu allra afbrigða af veirunni jafnt. Því er tiltölulega lítið smit í Noregi en ótti við að meira berist til landsins frá löndum þar sem eftirlit er lítið eða ekkert.