Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Metnaðarfull sýning sem heppnast ágætlega

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Metnaðarfull sýning sem heppnast ágætlega

29.01.2021 - 18:00

Höfundar

Sýningin Vertu úlfur veltir upp spurningum um hvort yfirhöfuð sé hægt að líta á geðsjúkdóma sem sjúkdóma, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. „Það væri manískt verkefni að reyna að svara öllu þessu í einni uppfærslu. Leiksýningar eru líka hentugri miðill til að spyrja en að svara með skýrum hætti.“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Getur verið að við séum búin að breyta eðlilegri vanlíðan, eðlilegum fjölbreytileika mannlífsins og eðlilegum hliðum persónuleika í sjúkdóm? Er rétt að skilgreina persónuleika sem sjúkdóm, er ein af mörgum stórum spurningum í Vertu úlfur sem frumsýnd var nýlega á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Því vissulega getur maður fengið kvef án þess að það geri hann að kvefi, en fái hann greiningu eins og ofvirkni, þunglyndi, geðhvörf eða geðklofa svo dæmi sé nefnt þá fylgir sá stimpill manninum til æviloka, og mótar bæði sjálfsmynd hans og viðhorf samfélagsins gagnvart honum. Viðhorf okkar til hans.

Sýningin, Vertu úlfur veltir þessu upp, hvort yfirhöfuð sé hægt að líta á geðsjúkdóma sem sjúkdóma, og er nokkuð gagnrýnin á geðheilbrigðis-kerfið og samfélagið. Hún er byggð á bók eftir Héðin Unnsteinsson sem, fyrir utan að hafa verið ráðgjafi nokkurra ríkisstjórna um geðheilbrigðismál, hefur reynslu af að vera skilgreindur geðveikur, dvalið á geðdeild, verið skömmtuð lyf og meira að segja nauðungarvistaður. Áfallið sem fylgdi þeirri nauðungarvistun er rauður þráður í gegnum sýninguna og litar samband sögupersónunnar við sína nánustu og samfélagið.

Í sýningunni stendur Björn Thors einn á stóra sviðinu, klæddur í vel sniðin jakkaföt. Verkið er einleikur, eintal þar sem áhorfendur eru ávarpaðir og jafnvel ásakaðir. Honum er leikstýrt af Unni Ösp Stefánsdóttur, sem einnig gerði leikgerðina upp úr bók Héðins. Björn er með okkar færustu leikurum, og passar býsna vel í þetta hlutverk. Honum ferst vel úr hendi þessi níutíu mínútna þeysireið um heim maníu og geðhvarfa, sem felur í sér mikil hlaup og þó nokkuð ýlfur.

Tónlist leikur stórt hlutverk í þessari sýningu sem skartar tveimur titillögum, nokkuð manískt í sjálfu sér. Það er annars vegar Vertu úlfur sem Emilíana Torrini og Markéta Irglová sömdu, og hins vegar Kötturinn vill inn með Prins Póló en yfirumsjón með tónlistinni hafði Valgeir Sigurðsson. Um búninga sá Filippía I. Elísdóttir og leikmynd gerði Elín Hansdóttir. Þessi umgjörð er einnig ágætlega heppnuð, titillögin útvarpsvæn eins og flest frá þessum listamönnum og annað er varðar hljóðmynd ágætt.

Stóra sviðið er, eins og nafnið gefur til kynna, stærsta svið Þjóðleikhússins og vanalega eru íburðarmeiri sviðsverk með fleiri leikurum færð upp þar en svo heppilega vill til að COVID-19 hefur sett strik í reikninginn og fjöldatakmarkanir hafa mögulega gert stærri sýningar illmögulegar, eða í það minnsta síður markaðsvænar. Eftir því sem listamennirnir hafa sagt í fjölmiðlum stóð fyrst til að setja verkið upp á minna sviði, sem væri synd því stærðin á sviðinu passar vel við maníuna og undirstrikar hversu einn Héðinn er á móti öllum heiminum. Sviðið er þó aldrei tómlegt, því Elín skapar ágætis sjónarspil með vatni, skuggum, sandi og myndbandsverkum svo dæmi séu nefnd. Uppsetningin nýtir leikhúsið afar vel, án þess að þó að ég vilji ljóstra upp hvernig það er gert, en leikurinn í það minnsta teygir anga sína víða.

En hvernig kemur þetta svo allt saman? Eins og áður sagði er sýningin leikgerð upp úr bók Héðins Unnsteinssonar sem segir persónulega sögu hans, allt frá því hann, ungur fótboltastrákur í Borgarnesi sem stefnir á læknanám, veikist svo alvarlega að hann fer á endanum á geðdeild, þar til hann eftir mörg ár á litíum finnur að hann er kominn að endastöð. Kreatín er að safnast upp í nýrunum, skjaldkirtillinn að gefa sig og hann í samráði við lækni ákveður að draga úr skammtinum smám saman og fara á hjartalyf sem reynist koma honum algjörlega úr jafnvægi, og yfir í maníu sem að lokum endar á frekar dramatískan máta.

Það er stiklað á stóru í lífi Héðins, hoppað yfir áratugi fram og til baka, og ekki alltaf kafað djúpt í það sem gerðist. Stundum var skautað fullmikið á yfirborðinu og margt óljóst og mörgu ósvarað. Sjarmi og orka Björns gerir mikið fyrir verkið, og sömuleiðis ljóðrænn textinn, sem oft er býsna fallegur. Spurningarnar í verkinu eru verðugar. Er geðveiki raunverulega til? Er heilbrigðiskerfið að bregðast fólki með ofurmarkaðsvæðingu sem reiðir sig á lyf til að bæla niður einkenni frekar en að leita leiða til raunverulegra lækninga? Höfum við útskúfað fólki og búið til varúlfa úr mönnum fyrir það eitt að ganga ekki í takt við samfélagið? Eins og Héðinn bendir réttilega á geta samfélög í heild sinni fengið ranghugmyndir og manísk köst svipað og árið 2007 þegar hagkerfið ofhitnaði og Íslendingar fengu ofurtrú á eigin viðskiptasnilld.

Það væri manískt verkefni að reyna að svara öllu þessu í einni uppfærslu. Leiksýningar eru líka hentugri miðill til að spyrja en að svara með skýrum hætti. Á heildina litið er Vertu úlfur metnaðarfullur sem heppnast ágætlega. Stundum töfrandi, stundum langdreginn, en þó ávallt kröftugur, fyndinn, sorglegur og spennandi í senn.

Tengdar fréttir

Leiklist

Grét á leiksýningu um sjálfan sig

Leiklist

„Þetta var ótrúlega erfitt tilfinningalega“