Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kraftur: Tafirnar vekja óhug hjá konum

29.01.2021 - 19:49
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Tafir við greiningu leghálssýna vekja óhug hjá konum, segir framkvæmdastjóri Krafts. Ekki hafi verið staðið nógu vel að flutningi þjónustunnar til heilsugæslunnar, en heilbrigðisráðherra segir eðlilegt að hann taki tíma.

Rannsóknarstofa í Danmörku hefur fengið fyrstu þúsund leghálssýnin til greiningar, af þeim sem stóðu út af við flutning leghálskimana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin. Það er helmingur sýnanna og sumar þessara kvenna hafa beðið frá því í nóvember. 

„Síðari þúsund verða send á næstu dögum. Samkvæmt þeim upplýsingum eru um 200 sýni sem þarf að taka aftur af tæknilegum ástæðum,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni bárust fyrstu svörin frá rannsóknarstofunni í dag. Um 15% þeirra þurfa frekari eftirfylgni. „Óhjákvæmilega hefur þetta vakið óhug hjá konum,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts.

Forstjóri heilsugæslunnar segir að allir sem hafa beðið frá því í nóvember muni fá bréf með svari, þó að allt líti eðlilega út. Vonast er til að búið verði að svara öllum eftir tvær til þrjár vikur. Þær sem fara í skimun í dag ættu að fá svar á innan við mánuði. „Þetta hefur tekið aðeins tíma en ég vonast til að á allra næstu vikum verði þetta komið í viðunandi horf. Og mikilvægast er að konur taki þátt,“ segir Svandís.

Er það eðlilegt með svona viðkvæma þjónustu að það taki tíma að koma henni í viðunandi horf? „Já, ég held það. Það tekur alltaf tíma þegar við erum að gera breytingar,“ segir hún.

„Ég lagði alltaf mikla áherslu á það að það yrði samfella í þjónustunni og það yrði ekkert rof á henni. Því miður þá hafa samskiptin ekki gengið nægilega vel milli Krabbameinsfélagsins og opinberra aðila,“ segir Svandís.

Svandís segir að það þurfi að byggja upp traust til krabbameinsskimana aftur en hún hefur ekki áhyggjur af því til framtíðar.

Hvernig finnst Huldu flutningur þjónustunnar hafa gengið? „Eins og umræðan hefur verið hefði þetta bersýnilega mátt ganga betur. Og engan veginn nægilega vel staðið að þeim yfirflutningi, sama hvar sú ábyrgð síðan liggur, en það sem skiptir fyrst og fremst máli og það sem skiptir þessar konur máli er að þetta leystist,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts.