Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ítalir slaka á sóttvörnum í þremur héruðum

29.01.2021 - 17:29
epa08963776 People ride on public transport after the region return to orange zone of the pandemic restrictions in Milan, Italy, 25 January 2021. In Italy, the orange zones (medium-high risk) stipulates that shops can open, while restaurants and bars are closed except for takeaway.  EPA-EFE/MOURAD BALTI TOUATI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa
Búist er við að slakað verði á sóttvarnareglum í dag í þremur héruðum á Ítalíu. Dagblaðið La Repubblica greinir frá að til standi að færa Veneto, Emilia-Romagna og Kalabríu úr appelsínugulum flokki í gulan, þvert á ráðleggingar sérfræðinga í lýðheilsumálum. Þetta þýðir að opna má veitingastaði og bari að degi til í héruðunum þremur og íbúarnir fá að vera meira á ferðinni en áður.

Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar varaði í gær við að slakað væri á sóttvörnum í álfunni að sinni þar sem COVID-19 smit væru enn fjölmörg víðast hvar. AFP fréttastofan hefur eftir Walter Ricciardi, ráðgjafa heilbrigðisráðherra Ítalíu í sóttvörnum vegna farsóttarinnar, að Ítalir fari með þessu á svig við ráðleggingar. Það sé hins vegar afar erfitt að ráðleggja hertar aðgerðir þvert á vilja stjórnmálamanna og almennings.  Að hans mati gerði útgöngubann um jól og áramót sitt gagn við að koma á jafnvægi í baráttunni við kórónuveiruna, án þess að það drægi úr smitum.

Víða í Evrópu eru stjórnvöld að íhuga hertar aðgerðir vegna nýrra afbrigða veirunnar. Í Frakklandi er til dæmis búist við að Emmanuel Macron forseti tilkynni útgöngubann í þriðja sinn nú um helgina eða í síðasta lagi á mánudag.
 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV