Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ísland fær tíðum hallæri

29.01.2021 - 17:00
Mynd: Ásgrímur Jónsson / Ásgrímur Jónsson
Ef litið er yfir sögu mannfjölda á Íslandi kemur glöggt í ljós að síðan á tímum Vesturferðanna hefur brottflutningur fólks frá Íslandi verið ráð við hremmingum og atvinnuleysi heima fyrir. Sama á Írlandi og þar er meðvitundin um írsku útflytjendasöguna mjög sterk. En hið nýja er að brottflutningur hefur haldið áfram þrátt fyrir góðæri. Hver áhrif Covid verða á brottflutning á eftir að koma í ljós.

18. aldar vangaveltur um hvort Ísland væri byggilegt

Í bókinni ,,Um mannfækkun af hallærum á Íslandi“ leitaðist Hannes Finnsson biskup við að kanna hvort Ísland væri yfirleitt byggilegt. Bókina skrifaði Hannes um 1790 og tilefni til að efast um að svo væri: í móðuharðindunum 1783 til 1786 fækkaði Íslendingum úr 50 þúsund í 40 þúsund. Það er tíu þúsund manns eru talin hafi dáið úr hungri, um 20 prósent þjóðinnar.

Ályktun Hannesar var:  ,,Ísland fær tíðum hallæri, en ekkert land í Norður-álfunni er svo fljótt að fjölga á ný manneskjum og bústofni sem það, og er því eigi óbyggjandi.“ – Á nútímamáli: þó áföll væru algeng var Ísland byggilegt af því fólk brást við.

Vesturfarasagan íslenska: um 20 prósent fluttu vestur

Þegar leið á 19. öldina bættist eitt ráð við, enn í fullu gildi, að flytja úr landi, þangað sem betri kostir bjóðast. Vesturferðir Íslendinga á 19. öldinni og fram á þá 20., voru leit að betra lífi í Bandaríkjunum, Kanada og alla leið til Brasilíu. Á árunum 1882 til 1914 fluttu um sextán þúsund manns, ríflega tuttugu prósent þjóðarinnar miðað við mannfjölda um 1880.

Atvinnuleysi leiddi til brottflutnings...

Eftir hrun síldarstofnsins og verðlækkanir á erlendum mörkuðum 1967 og 1968 og meðfylgjandi atvinnuleysi fóru Íslendingar að flytja burtu um 1970, mest til Svíþjóðar en líka alla leiðina til Ástralíu. Eftir samdrátt og atvinnuleysi í upphafi tíunda áratugsins fluttu margir Íslendingar úr íslenskum sjávarplássum, settust til dæmis að í dönsku sjávarplássi, Hanstholm.

... en það tók tíma þar til fólk flutti

Á þessum tíma var áberandi að já, það var samhengi milli atvinnuleysis og brottflutnings en brottflutningurinn varð ekki fyrr en um tveimur árum eftir hremmingarnar. Annað í bankahruninu 2008, þegar brottflutningur fólks varð strax merkjanlegur árið eftir. Endurspeglar breyttar aðstæður, mun auðveldara að flytja.

Breytingin á tíunda áratugnum: útlendingar flytja til Íslands eftir atvinnu

Um miðjan tíunda áratuginn kemur ný breyta í dæmið: útlendingar fara að setjast að á Íslandi í mun meira mæli en áður. Nú eru um 14 prósent íbúa á Íslandi af erlendum uppruna.

Almenna reglan: fleiri Íslendingar fara en koma

Árið 1995 fluttu um 1600 fleiri Íslendingar frá landinu en til, óvenjumikill munur. Síðan þá og fram til 2018 hefur þessi tala aðeins verið fjögur ár í plús. Reglan því almennt að fleiri Íslendingar flytja að heiman en heim.

Góðæri stöðvaði ekki brottflutning

Eftir að samdráttur hrunsins var allur, 2011, tók við góðæri, sem sýndi þá nýja þróun: þrátt fyrir hagvöxt og næga vinnu fóru áfram fleiri Íslendingar utan en heim. Of snemmt að segja hvort þetta sé ný þróun, nú kannski fleira en atvinna sem hefur áhrif á löngun fólks að flytja erlendis. Reyndar vert að hafa í huga að almennt hafa 70 prósent þeirra Íslendinga sem flytja af landi brott snúið aftur innan átta ára.

Brottflutningur falinn hluti þjóðarsögunnar

Í um 150 ár hafa Íslendingar brugðist við innanlands erfiðleikum með því að flytja af landi brott. Brottflutningur verulegur liður í þjóðarsögunni en samt er ekki mjög sterk vitund á Íslandi um þessa brottflutningssögu.

Írland: útflytjendasagan er þjóðartráma

Annað með nágranna okkar, Íra, þar sem útflytjendasagan er þjóðartráma. Þeirra móðuharðindi voru hungursneyðin mikla á 19. öldinni, 1845 til 1852 eða svo, þegar ein milljón Íra lést úr hungri og um 1 ½ milljón flutti úr landi. Írar voru 8 milljónir í upphafi hungursneyðarinnar, fækkaði því um 20 til 25 prósent. Árið 1881 var um fjórðungur bresku borgarinnar Liverpool af írskum uppruna.

Og þannig hefur þetta haldið áfram: Írar flutt eftir atvinnu, einkum til enskumælandi landa: Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada og Ástralíu. En líka haldið áfram að flytja undanfarið, líkt og Íslendingar, þrátt fyrir góðæri.

Írska útflytjendasagan í gömlum og nýjum ballöðum

Meðvitundin um útflytjendasöguna heyrist í írskum ballöðum, alveg frá 19. öld og fram í samtímann. Til dæmis í lagi Wolfe Tones frá áttunda áratugnum: jú, Írar í útlöndum sakna Guinness bjórsins og rigningarinnar en þeir fara eins og feðurnir; þá alla vega ekkert atvinnuleysi meðal ungra Íra heima.

Dæmigerð írsk kaldhæðni. Nú er spurningin hver Covid-áhrifin verða á brottflutning, önnur saga í annan tíma. Og hvort enn gildir eins og Wolfe Tones sungu forðum: við komum aftur ef batnar í ári, flugvélarnir fljúga bæði út og heim.