Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Írar vilja taka upp íslensku leiðina á landamærunum

29.01.2021 - 13:57
epa07891823 Irish Prime Minister, An Taoiseach Leo Varadkar during a joint press conference with Swedish Prime Minister Stefan Lofven in Stockholm, Sweden, 03 October 2019.  EPA-EFE/Henrik Montgomery  SWEDEN OUT
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Leo Varadkar, viðskiptaráðherra Írlands, segir írska landlæknisembættið mæla með því að Írland taki upp íslensku leiðina á landamærunum þar sem allir farþegar þurfa að fara í tvöfalda skimun með fimm til sex daga sóttkví á milli.

„Þetta er eitthvað sem landlæknisembættið mælir með og við erum að íhuga alvarlega. Við tökum ákvörðun bráðum. Þetta fyrirkomulag Íslands byggir á því að allir sem koma til landsins fari í tvöfalda sýnatöku með fimm daga sóttkví á milli og það getur verið að þetta verði leiðin sem við förum,“ sagði Varadkar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á írska þinginu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er mikið upplýsingaflæði milli þeirra landa sem eiga aðild að Sóttvarnastofnun Evrópu. Þar deila sóttvarnayfirvöld upplýsingum um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og árangri af þeim. 

Írar ætla að herða mjög á öllum aðgerðum á landamærunum til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að koma í veg fyrir að afbrigði sem kennd eru við Brasilíu og Suður-Afríku nái þar fótfestu. Breska afbrigðið hefur náð talsverðri útbreiðslu á Írlandi og heilbrigðiskerfið þar er undir miklu álagi.  

Stjórnvöld ætla að leggja til að þeir sem koma frá Brasilíu og Suður-Afríku verði gert að vera í sóttkví í 14 daga á sérstöku farsóttarhóteli.

Þeir sem framvísa ekki nýlegri og neikvæðri sýnatöku þurfa einnig að vera í sóttkví í fjórtán daga. Allir sem framvísa neikvæðri sýnatöku við komuna til landsins þurfa að vera í sóttkví í nokkra daga en síðan fara í aðra sýnatöku að henni lokinni.

Í fyrstu var sagt að Varadkar væri forsætisráðherra en hann er viðskiptaráðherra.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV