Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúar á Hvammstanga hvattir til að spara kalda vatnið

29.01.2021 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Undanfarna daga hefur vatnshæðin í kaldavatnstanki fyrir Hvammstanga farið lækkandi. Ástæðan er sú að minna vatn kemur frá Grákollulind auk þess sem kaldavatnsnotkun er óvenju mikil. Fólk er hvatt til að spara kalda vatnið.

Hafa ekki áhyggjur af beinum skorti

Í tilkynningu frá veitustjóra á vef Húnaþings vestra kemur fram að til að sporna við frekari lækkun vatnshæðar hafi verið brugðið á það ráð að minnka rennslið.  „Það er von okkar að með samstilltu átaki og virkum sparnaðarráðum þurfum við ekki að hafa áhyggjur að beinum vatnsskorti og því mikilvægt að allir leggist á eitt í þessum efnum, segir í tilkynningu. 

Gefa íbúum hagnýt ráð

Þá eru íbúar hvattir til að spara kalda vatnið og nokkur ráð gefin í þeim samhengi. 

  • Tryggið að neysluvatnskerfin séu í lagi og að aftöppunarstaðir leki ekki vatni, t.d. hvort að það sé sírennsli í salernum, lekir kranar o.s.frv.
  • Eigendur atvinnuhúsnæðis athugi hvort kalda vatnið leki að óþörfu.
    Látið kalda vatnið ekki renna til að ná fram kælingu. Látið renna í könnur og kælið vatnið í ísskápnum. Þetta kallar á fyrirhyggju þannig að alltaf sé til nægilegt kalt vatn í ísskápnum.
  • Látið vatnið ekki renna meðan verið er að bursta tennur. Sama á við um rakstur.
  • Notið minna vatn við bílaþvott með því að skola mesta skítinn af bílnum fyrst en sápuþvo á eftir með svampi og vatni í fötu og skola bílinn síðan í framhaldi af því.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Frá Hvammstanga