Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

ESB dregur í land eftir hörð mótmæli

29.01.2021 - 23:51
Myndir frá landamærum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands
 Mynd: RTE-Írska ríkissjónvarpið - RTE
Evrópusambandið dró í kvöld ákvörðun sína til baka um að fylgjast sérstaklega með bóluefni sem væri sent til Norður-Írlands frá Írlandi. Ákvörðunin vakti mikla reiði jafnt meðal breskra og írskra stjórnvalda.

Fyrr í kvöld tilkynnti ESB að virkja ætti ákvæði í Brexit-samkomulaginu um að hafa landamæraeftirlit með bóluefnaskömmtum sem færu til Norður-Írlands. Átti það að tryggja að efninu yrði ekki dreift þaðan víðar um Bretland. Þeir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Micheal Martin, forsætisráðherra Írlands, lýstu báðir reiði sinni yfir ákvörðuninni. Johnson tjáði Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, að hann hefði þungar áhyggjur af mögulegum afleiðingum ákvörðunar sambandsins.

Ákvörðunin tekin til baka

ESB virðist hafa séð að sér því rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld birtist yfirlýsing frá sambandinu í Guardian þar sem segir að það ætli ekki að virkja umrætt ákvæði. Það komi hins vegar til greina ef bóluefnið verður sent til þriðja lands án samþykkis ESB. Martin fagnaði því að ESB hafi hætt við að virkja ákvæðið, og sagði það jákvæða þróun í einni af fjölmörgum áskorunum sem takast þarf á við í baráttunni við COVID-19.

Ákvörðunina fyrr í kvöld má rekja til deilna ESB við lyfjaframleiðandann AstraZeneca. Sambandið sakar fyrirtækið um samningsbrot vegna tafa á afhendingu bóluefnis til aðildarríkja, um leið og það stendur við samninga sína sem undirritaðir voru fyrr. Markaðsleyfi fyrir bóluefninu var gefið út í dag, og sagði von der Leyen í kvöld að ESB reikni með því að fá þá 400 milljónir skammta sem samið hafi verið um.

Ásakanir í báðar áttir

Deilurnar hafa staðið yfir í nokkurn tíma. AstraZeneca tilkynnti fyrir nokkru að það geti ekki staðið við afhendingaáætlun sína til ESB á fyrsta ársfjórðungi. Það fór illa í mörg Evrópuríki sem hafa jafnvel hótað því að draga fyrirtækið fyrir dómstóla. AstraZeneca segir sökina liggja hjá ESB þar sem það hafi verið lengi að ganga til samninga. Bretar skrifuðu undir samning við fyrirtækið þremur mánuðum áður en ESB gerði samning.