Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ávinningurinn vegur þyngra en aukaverkanirnar

epa08907640 A healthcare worker displays a vial of the Pfizer/BioNtech COVID-19 vaccine during first vaccination at the Umberto I Hospital in Rome, Italy, 28 December 2020.  EPA-EFE/ANGELO CARCONI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa
Ávinningurinn af bólusetningu með Comirnaty, kórónuveirubóluefni Pfizer/BioNTech er meiri en þær hugsanlegu aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um á þeim rúma mánuði sem liðinn er síðan byrjað var að bólusetja með lyfinu. Engin ástæða er til að breyta leiðbeiningum um notkun þess. Þetta kemur fram í nýrri öryggisskýrslu Lyfjastofnunar Evrópu um Comirnaty.

Skýrslan er birt á vefsíðu stofnunarinnar og áformað er að slíkar skýrslur verði gefnar út á mánaðarfresti.

Öryggisskýrslan byggir á gögnum sem safnað hefur verið saman síðan bóluefnið fékk markaðsleyfi. Meðal annars gögnum úr samevrópska lyfjagátargagnagrunninum EudraVigilance og mánaðarlegri öryggisskýrslu Pfizer/BioNTech, en gerð er krafa um slíka skýrslu fyrir öll bóluefni gegn COVID-19.

Í skýrslunni segir að bandarísk rannsókn sýni að bráðaofnæmiskast komi fram hjá 11 af hverjum milljón sem eru bólusettir með Comirnaty.  Ekkert bendi til annars en að rekja megi andlát aldraðs fólks með undirliggjandi sjúkdóma, eftir að hafa fengið bólusetningu með lyfinu, til heilsufars þess og aldurs.