Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árásin því miður ekki þruma úr heiðskíru lofti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég fordæmi auðvitað þessa árás, sem gerð er fyrir utan heimili borgarstjóra með skotvopnum, sem er nokkuð sem við höfum ekki séð áður,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um skotárás á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Mörk orðræðunnar að færast

Katrín segir að því miður komi árásin ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda hafi hér tíðkast hatursorðræða í garð stjórnmála og einstakra stjórnmálamanna. „Og því miður erum við að sjá mörk hennar færast núna á stað sem ég held að ekkert okkar vilji færa þau til,“ segir hún og bætir við að nú þurfi að ræða orðræðuna. „Borgarstjóri hefur svo sannarlega fengið sinn skerf af henni, og fleiri stjórnmálamenn. Við höfum séð atvik við heimili stjórnmálamanna þótt þar hafi ekki verið skotvopnum beitt,“ segir hún.

„Þá hljótum við að þurfa að velta því fyrir okkur hvaða skilaboð við erum að senda fólki sem er að taka þátt í stjórnmálum, sem þrátt fyrir allt eru hinn lýðræðislegi vettvangur ákvarðanatöku í samfélaginu,“ segir Katrín.

Stjórnmálafólk geti gengið frjálst um götur

Kallar þetta á aukið öryggi ráðamanna?

„Stóra spurningin er að við þurfum að skoða orsakirnar fyrir árásinni. Við getum reynt að tryggja öryggi fólks en hvað er það sem veldur því að svona atburðir verða? Við þurfum að ræða það fyrst og fremst. Af því að mér finnst ekki spennandi tilhugsun að hér séu stjórnmálamenn umkringdir öryggisvörðum og geti ekki gengið frjálst um göturnar. Mér finnst það vera heilbrigðismerki á íslensku samfélagi að við getum það, og þannig á það að vera áfram,“ segir Katrín.

En mér finnst þetta snúast  um orsakirnar og þær þarf að ræða. Því við vitum að orðræðan hefur tekið gífurlegum breytingum og má rekja aftur til hrunsins.“ segir hún að lokum.