Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Á við alla heimsins jógatíma og núvitundarnámskeið

Mynd: Menning / RÚV

Á við alla heimsins jógatíma og núvitundarnámskeið

29.01.2021 - 09:27

Höfundar

„Ég fyllist ekki vanmætti heldur er hver flís sem er dregin úr brjóstum jarðarinnar svo dásamleg tilfinning,“ segir Hrafn Jökulsson rithöfundur. 

Hrafn og samstarfsfólks hans, Veraldarvinir, gengu í það viðamikla verkefni að hreinsa Kolgrafarvík á Ströndum í Árneshreppi. Það gat svo af sér sýninguna Kolgrafarvík kemur í bæinn, sem stendur við Geirsgötu 11 í Reykjavík. „Ég ákvað að leggja allt annað í lífi mínu til hliðar og helga mig því að hreinsa Kolgrafarvík og eftir atvikum strandlengjuna,“ segir Hrafn. „Ég ákvað strax þá að ég myndi koma og sýna góssið, fenginn, aflann í höfuðborginni svo fólk gæti séð bæði hvað er við að eiga á Ströndum og líka kynnst neyslu- og ruslasögu mannsins síðustu 50, 60 ár eftir að plastöld hófst í heiminum og plastið fór að flæða upp á strendurnar.“ 

Allt sem ekki sekkur

Gríðarlegt magn plasts og úrgangs af ýmsum toga var fjarlægt fyrir tilstilli Hrafns og Veraldarvina „Þegar ég horfi á þetta núna hallast ég að því að það hafi verið brjálæði að byrja en með þennan ótrúlega liðsstyrk sem ég fékk, Veraldarvini og fleira gott fólk er aflinn kominn hingað. Það er allt frá tannburstum og til segulbandstækis sem var ábyggilega fermingargjöfin 1975 kannski og bara allt sem nöfnum tjáir að nefna sem á annað borð sekkur ekki til botns,“ segir Hrafn. 

Hrafn Jökulsson og samstarfsfólks hans, Veraldarvinir, gengu í það viðamikla verkefni að hreinsa Kolgrafarvík á Ströndum í Árneshreppi. Það gat svo af sér sýninguna Kolgrafarvík kemur í bæinn, sem stendur við Geirsgötu 11 í Reykjavík. „Ég ákvað að leggja allt annað í lífi mínu til hliðar og helga mig því að hreinsa Kolgrafarvík og eftir atvikum strandlengjuna,“ segir Hrafn. „Ég ákvað strax þá að ég myndi koma og sýna góssið, fenginn, aflann í höfuðborginni svo fólk gæti séð bæði hvað er við að eiga á Ströndum og líka kynnst neyslu- og ruslasögu mannsins síðustu 50, 60 ár eftir að plastöld hófst í heiminum og plastið fór að flæða upp á strendurnar.“
 Mynd: Menning - RÚV

Aðspurður segist Hrafn síst finna vonleysi andspænis umhverfisvánni. „Auðvitað getum unnið bug á þessu. Þetta útheimtir bara nokkrar vinnustundir og skipulag. Það er mjög einfalt. Þetta hefur gefið mér svo mikið, þegar ég fæ ungt fólk úr öllum heimshlutum sem kemur hingað að vinna í sjálfboðavinnu að því að hreinsa strandlengjuna okkar og náttúruna þá fyllist ég bjartsýni. Úr þessu hefur orðið til hreyfing og það er mikill eldmóður. Að vera úti í náttúrunni daginn út og inn, klukkustundum saman og hlusta á sjóinn og fuglana og þögnina, það er held ég á við alla heimsins jógatíma og núvitundarnámskeið sem til eru,“ segir Hrafn að lokum. 

Sýningin stendur til 1. febrúar. Nánari upplýsingar má finna hér