Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þúsundir mótmæla nýjum lögum um þungunarrof

28.01.2021 - 00:38
Mynd: EPA-EFE / PAP
Þúsundir streymdu út á götur í Póllandi í gærkvöld til þess að mótmæla nýjum lögum um þungunarrof sem tóku gildi í gær. Fyrir voru lögin með þeim strangari í Evrópu, en nú er þungunarrof alveg bannað nema þegar konur verða þungaðar eftir nauðgun eða sifjaspell, eða ef líf eða heilsa móður er í hættu.

Mikill fjöldi kom saman fyrir utan stjórnarskrárdómstólinn í Varsjá í gærkvöld. Þaðan gekk hópurinn fylktu liði að skrifstofu stjórnarflokksins Laga og réttar. Mótmælin voru skipulögð í flýti af hópi aðgerðarsinna sem á íslensku nefnist „Kvennaverkfall“.

Boðað var til blaðamannafundar og kallað eftir því að fólk léti vel í sér heyra. Stjórnarandstöðuþingmenn létu óánægju sína með birtingu laganna einnig í ljós. Borys Budka, leiðtogi Borgaravettvangs, segir úrskurðinn ekkert annað en ögrun. Wanda Nowicka, þingmaður Lýðræðisbandalags vinstri manna skrifaði á Twitter að stjórnvöld hafi enn ekki unnið stríðið gegn konum, og það ættu þau ekki eftir að gera. 

„Þögli meirihlutinn“ sagður samþykkur lögunum

AFP fréttastofan hefur eftir pólskum samfélagsrýnum að kannanir sýni samstöðu þöguls meirihluta Pólverja við ströng lög um þungunarrof. Aðeins lítill hluti landsmanna vilji auka rétt kvenna til þungunarrofs. Stjórnvöld hafa jafnframt varið ákvörðun sína, og segja hana koma í veg fyrir þungunarrof í þágu mannakynbóta. Eiga þau þar við rof sem eru framkvæmd á fóstrum sem greinast með Down's heilkenni. Mannréttindasamtök benda á móti á að nýju lögin neyði konur til þess að ganga að fullu með fóstur sem er vart hugað líf.