Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur að Krabbameinsfélagið hefði átt að klára sýnin

Kristján Oddsson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg, sagði í Kastljósi í kvöld að Krabbameinsfélagið hefði átt að ljúka við greiningu á þeim krabbameinssýnum sem samningar sögðu til um, en svo hafi ekki verið gert. Tímastjórnun félagsins hefði átt að vera betri.

Umsjón leghálsskimunar færðist til heilsugæslunnar frá Krabbameinsfélaginu um áramót. Þá voru 2000 sýni send úr geymslu til heilsugæslunnar í Hamraborg. Rannsóknarstofa í Danmörku, sem annast á greiningu á sýnunum, getur ekki notað eldri sýnin til að frumugreina þau. 

„Ég hefði talið að ef maður fær greitt fyrir þjónustu sem maður tekur að sér, þá ljúki maður henni. Það varð ekki. Þeim hefði átt að vera það ljóst fyrir einhverjum mánuðum síðan, það var reyndar ljóst í nóvember 2019, að þessi starfsemi mundi fara frá þeim. Þeir hefðu þá þurft að hætta skimunum þannig að fólk fær boð um að koma, þeir hefðu þurft að draga úr þessum boðsbréfum og draga úr starfseminni hægt og rólega þannig að þeir hefðu skilið við með þeim hætti að það væru engin órannsökuð sýni hjá þeim.” 

- Á veirufræðideildinni kostar um 3400 krónur að greina hvert sýni. 2000 sýni eru þá tæpar sjö milljónir. Er þetta spurning um peninga? 

„Það get ég ekki ímyndað mér.”

Kastljós kvöldsins má nálgast í spilaranum hér að ofan.