Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skotið á bifreið borgarstjóra

28.01.2021 - 10:09
Mynd með færslu
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Mynd: RÚV  - Þór Ægisson
Skemmdir voru unnar á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í síðustu viku. Talið er að skotið hafi verið á bílinn. Grunur er um að sá sem var þar að verki hafi einnig skotið að skrifstofu Samfylkingar í Sóltúni í síðustu viku.

Lögreglan sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu rétt í þessu:

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál sem snýr að skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjórans í Reykjavík, en málið er litið mjög alvarlegum augum. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort skotvopn hafi verið notað við verknaðinn og eins hvort málið tengist öðru frá því í síðustu viku þar sem voru unnar skemmdir á húsnæði Samfylkingarinnar í Sóltúni í Reykjavík. Bifreiðin, sem varð fyrir skemmdum, er í eigu borgarstjóra og fjölskyldu hans,“ segir í tilkynningunni.

Ekki fást frekari upplýsingar frá lögreglu að svo stöddu. Ekki náðist í Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjón við vinnslu þessarar fréttar. 

Fréttastofu er kunnugt um að lögregla hafi vaktað heimili borgarstjóra um helgina. Talið að það sé vegna skotárásarinnar á bíl fjölskyldunar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.