Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir rettu í munnviki Lofts klárt brot á lögum

28.01.2021 - 13:41
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Mynd af reykjandi manni framan á bjórdós er skýrt brot á tóbaksvarnarlögum að mati framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins. Embætti landlæknis hefur óskað eftir skýringum frá ÁTVR.

Bjórinn Loftur kom á markað í síðustu viku á dánardægri Lofts Gunnarssonar útigangsmanns sem lést árið 2012 og rennur ágóðinn af sölu bjórsins í minningarsjóð, sem ætlað er að bæta hag útigangsmanna í Reykjavík ásamt því að berjst fyrir að lögbundin mannréttindi þeirra séu virt. Útlit bjórdósanna hefur vakið athygli.

Hjá Vínbúðunum hafa gilt ýmsar reglur um það hvernig umbúðirnar mega vera. Á sínum tíma var til dæmis bannað rauðvín með nafni hljómsveitarinnar Motörhead af því að það þótti vísa til amfetamínneyslu. Einnig var bannaður drykkur af hálfberri konu og einnig bjór, páskabjór af því að umbúðirnar þóttu höfða of mikið til barna. Ogt núna er kominn á markað þessi bjór með mynd af reykjandi manni. Það er spurning hvort að það þýði eitthvað.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR vildi ekki tjá sig um þessar umbúðir þegar eftir því var leitað, en sagði að lögum sem um þetta fjalla hefði verið breytt árið 2014. Sem kunnugt er varð mikil umræða um mynd af Bubba Morthens reykjandi í tengslum við uppfærslu Borgarleikhússins á verki um hann. Borgarleikhúsið á endanum breytti myndinni þannig að sígarettan hvarf úr munnviki tónlistarmannsins. Þá er bara stóra spurninginn, hver er munurinn á Lofti og Bubba? 

„Þetta er klárt brot á tóbaksvarnarlögum. Það kemur skýrt fram í lögunum í 7. greininni að það sé bannað að sýna neyslu, það er bannað að auglýsa, það er bannað að sýna myndskreyttan varning þar sem fram tóbaksneysla, svo þetta er skýrt brot á tóbaksvarnarlögunum“ segir Guðlaug B. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.

Þá segir Guðlaug að sér þyki markaðssetning á bjór til styrktar málefninu, þótt það sé gott, vafasöm.

„Við bíðum eftir viðbrögðum því Embætti landlæknis hefur óskað eftir skýringum frá ÁTVR, við bíðum væntanlega eftir því hvað kemur út úr því, en að öllu jöfnu gerum við athugasemdir við þetta líka,“ segir Guðlaug.

Ólafur S. K. Þorvaldz, maðurinn á bak við bjórinn Loft sagði í samtali við fréttastofuna að hann og félagar hafi hreinlega ekki velt sígarettunni á myndinni fyrir sér, heldur hafi einfaldlega verið valin mynd af Loft sem væri táknræn fyrir hann.