Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvissustigi aflétt vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum

28.01.2021 - 08:43
Mynd með færslu
 Mynd: María H. Tryggvadóttir
Veðurstofan hefur aflétt óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Fólki er áfram bent á að fara með gát þar sem snjóalög séu veik og ferðalög í bröttum hlíðum séu varasöm. Þar með er búið að aflétta óvissustigi á öllum þeim svæðum sem varað var við undanfarna daga.

Ótal snjóflóð hafa fallið á landinu seinustu viku, bæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hættustig var í gildi bæði á Tröllaskaga og á Flateyri. Óvissusti var á Austfjörðum, Norðurlandi öllu og á norðanverðum Vestfjörðum. Í pistli vakthafandi sérfræðings á Veðurstofunni frá því nú klukkan hálf níu segir:

„Talsvert hefur bætt í snjó á norðurhelmingi landsins, frá Vestfjörðum að Austfjörðum, en lítill nýr snjór er sunnan heiða. Snjórinn kom í langvarandi N-NA átt sem hófst í byrjun síðustu viku. Óvissustig vegna snjóflóðahættu var í gildi á Norðurlandi, á norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum um tíma og þar féllu breið flekaflóð. Flóð voru enn að falla þegar veður var að mestu gengið niður, í litlum skafrenningi eða þegar sól tók að skína á brekkur. Þessi flóð gefa vísbendingar um viðvarandi veik lög og er varað við ferðum í brattlendi eða undir bröttum hlíðum þar sem snjór hefur safnast. Þótt lítill nýr snjór sé á sunnanverðu landinu þá eru sumstaðar óstöðugir vindflekar í suðurvísandi hlíðum sem geta verið varasamir fyrir fólk á ferð í brattlendi,“ segir á vef Veðurstofunnar.