Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Markmiðið að fjölga eggjum í körfunni

28.01.2021 - 16:29
Mynd: Alþingi / Alþingi
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sér sóknarfæri í stóriðjunni og vill að Ísland verði fyrsta landið til að vera óháð jarðefnaeldsneyti. Hún vill fjölga störfum og breikka atvinnugreinina sem nú þegar skapi verðmæti, mörg hundruð störf og milljarðatugi í gjaldeyristekjur.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, var málshefjandi í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um stöðu stóriðju. Bergþór sagði orkufyrirtækin hafa lifað við töluvert mikla óvissu síðustu misserin og lýsti áhyggjum ef starfsemi stóriðju hér á landi flyttist annað.

„Mér hefur þótt sá tónn sem mætir þessum burðarfyrirtækjum á hverju svæði vera æði neikvæður um langa hríð,“ sagði Bergþór. „Hópar sem margir hverjir hafa lítinn skilning á verðmætasköpun hafa gengið fram með þeim hætti að augljóst er að þeir vilja fyrirtækin hið minnsta sum þeirra í burt.“

Þórdís Kolbrún var til svara og sagði að þetta mætti aldrei fara að snúast um að hafa annað hvort það sem við nú hefðum eða það sem hægt væri að grípa í. Hún bindur miklar vonir við nýtt regluverk um meðferð vindorku og vill að Ísland verði fyrst allra landa til að vera óháð jarðefnaeldsneyti.

„Þetta snýst um að fjölga eggjum í körfunni. Þetta snýst um að auka verðmætasköpun, fjölga störfum og breikka í raun þessa atvinnugrein,“ sagði hún. „Það er enginn að tala um, og allra síst ég, að einhver vilji sjá þau öflugu, sterku fyrirtæki sem við höfum hér, sem skaffa hundruð starfa og tugmilljarða af gjaldeyristekjum, fjara út og að hitt taki við.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV