Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland fær verstu spillingareinkunn af Norðurlöndum

28.01.2021 - 08:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu í morgun niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Mælingin nær til spillingar í opinbera geiranum og byggist á áliti sérfræðinga og aðila í viðskiptalífinu.

Mælingin kallast Corruption  Perception Index (CPI) á ensku. Undanfarin ár hefur spillingarvísitalan hér á landi lækkað jafnt og þétt og situr Ísland nú í 17 sæti á lista yfir lönd þar sem spilling þrífst hvað verst. Til þess að land sé talið laust við spillingu þarf það að ná 100 stigum. Ekkert land nær því, en Nýja Sjáland og Danmörk sitja í efsta sæti listans með 88 stig. Ísland er neðst Norðurlanda í 17. sæti með 75 stig. Ísland deilir 17. sætinu með Eistlandi. Í seinustu mælingu var Ísland í 11. sæti árið 2019 með 78 stig. 

Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein áhrifaríkustu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum. Samtökin  starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og óréttlæti og margs konar samfélagslega skaða sem hún veldur.

Sómalía og Suður Súdan sitja á botni listans með aðeins 12 stig af 100 mögulegum. Norður Kórea situr í 170 sæti af 180 löndum og hefur færst upp um 10 sæti frá árinu 2012.  Bandaríkin sitja í 25. sæti með 67 stig af 100 mögulegum og hafa fallið niður um 6 sæti frá 2012.

Alþjóðastofnanir hafa lýst því yfir og rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarréttindum, tækifærum og lífsgæðum fólks hvar-vetna í heiminum og grefur undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum og stofnunum á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds.

Listann í heild sinni má sjá hér.