Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjálpa löndum sínum og reyna að rífa upp stemmninguna

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Fjórðungur íbúa í Reykjanesbæ er atvinnulaus. Pólskur íbúi bæjarins telur að fótbolti gæti létt stemmninguna. Landi hans svarar spurningum atvinnulausra Pólverja í Facebook-hópi. Maður sem er með pólskt hlaðvarp um lífið á Íslandi, segir fólk ekki alltaf vita hvernig eigi að nálgast áreiðanlegar upplýsingar. Skrifstofa Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ er lokuð vegna kórónuveirunnar.

Missti vinnuna og ákvað að liðsinna öðrum

Kórónuveirukreppan hefur farið illa með íbúa Reykjanesbæjar enda flug- og ferðaþjónusta þungamiðja atvinnulífsins á svæðinu. Þegar ferðamennirnir hættu að koma, fóru uppsagnarbréfin að berast og sumir þurfa hjálp með næstu skref. „Fæstir þekkja lögin og sumir vita ekki hvernig þeir eiga að sækja um atvinnuleysibætur þannig að ég sest yfir þetta með þeim, útskýri skref fyrir skref.“ segir Dawid Kraśnicki, ungur maður frá Póllandi.  

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Dawid Kraśnicki svarar fyrirspurnum landa sinna í Facebook-hópi.

Dawid missti vinnuna á bílaleigu og hugsaði með sér, að fyrst hann hefði tíma gæti kynnt sér lögin á Íslandi og liðsinnt öðrum. Hann byrjaði að svara fyrirspurnum fólks í Facebook-hópi atvinnulausra Pólverja fyrir tveimur mánuðum og segist hafa hjálpað um það bil hundrað manns. „Það kostar mig ekki neitt og þau þurfa að sjálfsögðu ekkert að borga,“ segir hann.  

Hann segir að biðin eftir bótum reynist mörgum erfið, sumir eigi ekki sparifé til að halda sér uppi á biðtímanum. Sjálfur gæti hann ekki borgað reikninga ef kærastan hans væri ekki í vinnu. 

Skrifstofan lokuð og margir ráðvilltir

Skrifstofa Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ er lokuð vegna kórónuveirufaraldursins og margir virðast leita annað. Þjónustan er þó ekki lokuð, það er hægt að panta símatíma og fá að ræða við pólskan ráðgjafa. 

Piotr Okreglicki heldur úti hlaðvarpi um lífið á Íslandi. Hann er vanur að gefa fólki ráð og þegar kreppan harðnaði fóru margir að spyrja hann hvernig best væri að snúa sér varðandi bætur og annað. „Fólk virðist ekki alltaf vita hvar best er að sækja sér áreiðanlegar upplýsingar. Á hverjum einasta spjallþræði er spurt, er einhver sem talar pólsku þarna? Það þekkja allir pólsku konuna sem vinnur í Landsbankanum og það þekkja allir pólskumælandi manninn hjá Vinnumálastofnun.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Piotr Okreglicki er með Hlaðvarpsþætti um lífið á Íslandi.

Berst fyrir fótboltavelli með stuðningi forsetans

Það eru erfiðir tímar í Reykjanesbæ en sumir telja að fótbolti gæti létt andrúmsloftið. „Fólk er þunglynt, ekki allir en margir. Það er slæmt ástand hérna, sérstaklega hjá þeim sem eru án atvinnu,“ segir Tomasz Maciejewski. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Tomasz Maciejewski vill fá Reykjanesbæ til að koma upp vindvörðum fótboltavelli á Ásbrú.

Tomasz vinnur á flugvellinum og berst nú fyrir því að Reykjanesbær setji upp fótboltavöll á Ásbrú. „Bara lítinn, upplýstan fótboltavöll þar sem er skjól fyrir vindinum,“ segir hann. Ekki veitir af skjóli, því vindurinn þreytist seint á að blása á Ásbrú. „Um jólin stofnaði ég síðu á Facebook, fyrir þá sem vilja styðja hugmyndina, ég held þetta yrði gott fyrir alla íbúa hér.“ Völlurinn gæti að hans sögn nýst fólki sem nú er án atvinnu, ungum jafnt sem öldnum og þangað gæti fólk af ólíkum uppruna og trúarbrögðum komið og spilað saman. Tomasz sér fyrir sér að bætt íþróttaaðstaða auki jöfnuð og bæti samfélagið. 

Þakklátur fyrir stuðninginn

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist

Hann hefur fengið aðstoð margra við að vekja athygli á hugmyndinni á Facebook, gera myndbönd og fleira.  Hann þakkar sérstaklega forsetanum sem svaraði erindi hans og lýsti yfir stuðningi við að völlurinn risi. „Takk, herra forseti. Þegar ég sendi þér bréfið óraði mig ekki fyrir því að þú myndir svara.“ 

I would like to publicly say thanks to the President of Iceland for answering my letter. It is great that in Iceland...

Posted by ASBRU Football Pitch Project on Þriðjudagur, 5. janúar 2021

Kýs frekar veiðistöng en fisk í soðið

Dawid vonar að atvinnulífið fari að glæðast. „Það er betra að gefa fólki veiðistöng svo það geti veitt sjálf heldur en fisk til að borða. Það er betra að fara að vinna aftur en að bíða eftir peningum frá ríkinu.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV