
Al Jazeera hefur eftir öryggisyfirvöldum í Líbanon að níu herlögreglumenn hafi særst, þar af einn lífshættulega, þegar handsprengju var kastað í átt að þeim í miðborg Tripoli. Öryggissveitin hótaði því að grípa til harðra, en löglegra, aðgerða gegn óeirðarseggjum. Rauði krossinn í Líbanon segist hafa veitt yfir áttatíu manns aðstoð í tengslum við mótmælin, þar af hafi 15 verið fluttir á sjúkrahús.
Útgöngubannið miðar að því að koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið fari á hliðina vegna faraldursins. Yfir 285 þúsund af sex milljónum íbúa landsins hafa greinst með COVID-19 og nærri 2.500 eru látnir. Engin efnahagsaðstoð hefur hins vegar borist frá stjórnvöldum á meðan fólk er frá vinnu. Það er einstaklega slæmt fyrir þá fjölmörgu íbúa Tripoli sem vinna utan hefðbundins vinnumarkaðar, og eiga því ekki rétt á ríkisaðstoð. Útgöngubannið er í gildi til 8. febrúar. Stjórnvöld stefna á að hefja bólusetningu um miðjan febrúar.