
ESB vill láta rannsaka lyfjaverksmiðju í Belgíu
AstraZeneca hefur tilkynnt að fyrirtækið geti ekki staðið við samninga við Evrópusambandið um afhendingu bóluefnis vegna vandamála í verksmiðjum á meginlandi Evrópu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar og fleiri hafa lýst yfir óánægju vegna þessa, sem setji bólusetningu gegn kórónuveirunni í uppnám í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Framkvæmdastjórnin hefur farið fram á að verkferlar verði skoðaðir í Henogen/Novasep verksmiðjunni í Seneffe í Belgíu þar sem framleitt er bóluefni fyrir AstraZeneca.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði í dag að tíu erfiðar vikur væru fram undan þar í landi vegna skorts á bóluefnum. Þá lýsti nefnd heilbrigðisyfirvalda í Þýskalandi því yfir í dag að hún mælti gegn því að bóluefni frá AstraZeneca yrði notað til að bólusetja fólk sem orðið er 65 ára eða eldra. Fram kom að rannsókn Robert Koch sóttvarnastofnunarinnar hefði leitt í ljós að bóluefnið veitti fólki sem náð hefði þeim aldri ekki næga vörn.