Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dularfullur dauði pelíkana í Senegal

28.01.2021 - 06:59
Pelicans take off from the Rietvlei Wetland Reserve at dawn in Cape Town, South Africa
 Mynd: EPA
Umhverfisyfirvöld í Senegal rannsaka nú dauða 750 pelíkana sem fundust í norðanverðu landinu. Fuglarnir voru allir í Djoudj fuglaathvarfinu í votlendinu við landamærin að Máritaníu. Þangað leita milljónir farfugla á hverju ári, og er svæðið á heimsminjaskrá Mennta- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Bocar Thiam, yfirmaður þjóðgarðastofnunar Senegal sagði í viðtali að yfirvöld hafi tekið sýni úr fuglunum til greiningar. Guardian hefur eftir honum að vonast sé til þess að fá niðurstöður sem allra fyrst. 

Um 350 fuglategundir leita á þessar slóðir en aðeins pelíkanar fundust dauðir. 740 voru ungir fuglar og tíu þeirra fullorðnir. Athvarfinu hefur verið lokað á meðan rannsókn á dauða pelíkananna fer fram.

Fyrr í mánuðinum greindu yfirvöld frá útbreiðslu H5N1 fuglaflensunnar á alifuglabúi. Það var í Thies-héraði, nærri 200 kílómetrum frá Djoudj. Þar varð að slátra um 100 þúsund kjúklingum vegna flensunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV