Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Dauðaslys á að vera hægt að koma í veg fyrir“

Mynd úr safni. - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Að minnsta kosti sex manns hafa drukknað í sundlaugum hér á landi undanfarin 25 ár. Sérfræðingur í sundöryggismálum segir að hægt væri að koma í veg fyrir banaslys í sundlaugum, ef allt væri eðlilegt. Námskeið fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og björgun á sundstöðum hefur ekki verið haldið árum saman, þótt reglugerð segi til um að leiðbeinendur eigi að sækja slík námskeið á þriggja ára fresti til þess að viðhalda réttindum sínum.

31 árs gamall karlmaður lést í Sundhöll Reykjavíkur í síðustu viku. Maðurinn fannst á botni innilaugarinnar, á svæði þar sem dýpið er mest fjórir metrar. Tveir laugarverðir voru að störfum í lauginni þegar slysið varð, annar í sal innilaugarinnar og hinn í turni þar sem aðgengi er að öryggismyndavélum.

Hafþór B. Guðmundsson, lektor í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, hefur um árabil barist fyrir auknu öryggi í sundlaugum hér á landi.

„Slys verða alltaf. En dauðaslys á að vera hægt að koma í veg fyrir ef allt er eins og það á að vera. Það er bara þannig,“ segir Hafþór.

Símar trufla

Samkvæmt upplýsingum frá Landlækni drukknuðu sex manns í sundlaugum hér á landi á árunum 1996 til 2019. Ekki liggur fyrir hvort maðurinn sem lést í síðustu viku hafi drukknað eða látist af öðrum orsökum.

Hafþór bendir á að í kennslumöppu Rauða krossins séu taldar upp þrjár meginástæður drukknunar í vöktuðum sundlaugum. Í fyrsta lagi að laugarverðir lesi aðstæður með röngum hætti, í öðru lagi að laugarverðir séu beðnir um að sinna öðrum skyldum, og í þriðja lagi að þeir verði fyrir truflun, svo sem vegna farsímanotkunar.

„Þegar maður er á sundlaugavaktinni sjálfri, þá eru símar og önnur slík tæki gjörsamlega bönnuð. Þú getur ekki hvort tveggja, að vera á Facebook og að gæta öryggis. Þú getur gert það í pásunni þinni.“

Faðir mannsins sem lést í Sundhöllinni hefur sagt að hann hafi legið á botninum í sex mínútur áður en hann uppgötvaðist.

„Almennt séð er það engan veginn ásættanlegt að enginn fatti eða komist að því að þarna er slys í gangi í sex mínútur,“ segir Hafþór.

Mannslíf meira virði

Hafþór bendir á að þeir sem leiðbeina um skyndihjálp og björgun á sundstöðum eigi að fá reglulega endurmenntun hjá Umhverfisstofnun til að viðhalda réttindum sínum, en það hafi ekki gerst í mörg ár. Samkvæmt svari frá Umhverfisstofnun hafa námskeiðin ekki verið haldin undanfarin ár, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi engu að síður framlengt réttindi leiðbeinenda. Tillögur um breytt fyrirkomulag námskeiða séu til skoðunar.

„Umhverfisstofnun fær ekki fjármagn frá ráðuneytinu. Þetta bara gengur ekki. Mannslíf hlýtur að vera meira virði en einhverjar krónur uppi í ráðuneyti,“ segir Hafþór.