Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarni: Spillingarmælikvarðinn ekki fullkominn

28.01.2021 - 15:12
Mynd: Alþingi / Alþingi
Fjármálaráðherra segir oft um óljósa tilfinningu að ræða þegar rætt er um spillingu en ekki dæmin sjálf, og þessi mælikvarði sé ekkert algildur eða fullkominn. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur áhyggjur af stöðunni og viðbrögðum stjórnvalda.

Meðal skýringa á spillingu hér á landi nefnir skýrslan bankahrunið, fjármálavafstur stjórnmálamanna í Panamaskjölunum og Samherjamálið - og að spilling nái til opinberra aðila.

Logi spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun. Fjármálaráðherra sagði dæmin léttvæg en Logi sagði að skilaboð stjórnvalda við þessar aðstæður yrðu að vera skýr.

„Öllum sé ljóst að hart verði tekið á hvers kyns bellibrögðum og fjárveitingar til nauðsynlegra eftirlitsstofnana, meðal annars umboðsmanns Alþingis, skattrannsóknastjóra, saksóknara, sé ekki skornar við nögl. Og í því samhengi, herra forseti, eru orð ráðherra mjög dýr. Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur áður svarað mér að hann hafi ekki áhyggjur af spillingu á Íslandi og íslensku viðskiptalífi,“ sagði Logi.

Bjarni svaraði þessu: „Á þennan mælikvarða – sem er ekkert algildur mælikvarði eða fullkominn á nokkurn hátt – þá skorum við ekki jafn hátt og Norðurlöndin.“

„Og mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við gætum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu,“ sagði Bjarni. „En það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem að menn hafa í höndunum heldur tilfinningin fyrir því að það grasseri einhvers staðar spilling einhver svona óljós tilfinning.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV