Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bætt samningsstaða leigjenda og leiguverð lækkar áfram

28.01.2021 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Fólki á leigumarkaði fækkaði á nýliðnu ári en framboð íbúða jókst. Með minni eftirspurn og auknu framboði lækkaði leiguverð og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) spáir því að leiguverð haldi áfram að lækka á þessu ári.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu HMS um stöðu og þróun húsnæðismála árið 2021 sem kynnt var á húsnæðisþingi félagsmálaráðuneytisins og HMS í gær. Þar segir einnig að í upphafi ársins 2020 hafi tæplega 17 prósent fólks á húsnæðismarkaði verið leigjendur en að hlutfallið hafi lækkað í tæp 13 prósent síðar sama ár.

Lægri vextir og Airbnb-íbúðir á almennan markað

Lækkað leiguverð skýrist ekki síst af vaxtalækkunum á nýliðnu ári, sem auðveldaði fólki að færa sig af leigumarkaði og yfir í eigið húsnæði. Þetta sést líka á því að tæplega þriðjungur fasteignakaupa á síðasta ári voru fyrstu kaup og hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. Þá hafði einnig mikil áhrif fækkun íbúða sem leigðar eru út í Airbnb en þær íbúðir eru margar nú til leigu á almenna markaðnum.

Spá frekari lækkun á leiguverði

Með samdrætti í eftirspurn hefur samningsstaða leigjenda batnað og HMS spáir því að þróunin haldi áfram í sömu átt. Í skýrslunni segir að vaxtalækkanir og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar komi til með að mynda þrýsting á leigusala að lækka leiguverð enn frekar. „Við gætum séð enn frekari lækkun framundan því það tekur tíma fyrir svona breytingar að koma inn í tölurnar,“ sagði Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur hjá HMS, á húsnæðisþinginu í gær.