Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Áhorf á fréttir Stöðvar 2 minnkar um helming

Mynd með færslu
 Mynd: Glenn Carstens-Peters - Unsplash
Alls horfðu 10,8% landsmanna á aldrinum 12 til 80 ára á fréttir Stöðvar 2 vikuna 18. til 24. janúar. Sú tala sýnir meðaláhorf á hverja mínútu fréttatíma hvern dag. Hafa ber í huga að fleiri horfðu samtals á fréttatímana yfir vikuna. Meðaláhorf á hvern fréttatíma RÚV var 29,9% í síðustu viku. 

Fréttatími Stöðvar 2 er nú í lokaðri dagskrá en sú breyting tók gildi 18. janúar. Fréttatíminn hafði verið öllum opinn í um þrjá áratugi. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í rafrænum ljósvakamælingum Gallup. Séu áhorfstölur á fréttir Stöðvar 2 skoðaðar aftur í tímann má sjá að algengt var að um 20 til 25% sjónvarpsáhorfenda fylgdust með þeim. 

Áhorf á fréttir Stöðvar 2 hefur því dregist saman um helming eftir að ákveðið var að loka útsendingu þeirra.   

Uppsafnað áhorf á fréttir RÚV dagana 18. til 24. janúar er 33,6% en það er hlutfall þeirra sem horfðu í hið minnsta fimm mínútur samfleytt á fréttirnar. Sambærileg tala um fréttir Stöðvar 2 í þeirri viku kemur ekki fram.

Áhyggjur Sambands norrænna blaðamannafélaga

Samband norrænna blaðamannafélaga, Nordisk Journalistforbund, lýsti nú í vikunni yfir þungum áhyggjum af þeim neikvæðum áhrifum á fjölræði fjölmiðla á Íslandi sem lokun frétta Stöðvar 2 kunni að hafa.

Það muni, að mati sambandsins, óumflýjanlega ógna fjölbreytileika til framtíðar því nú sé RÚV eini valkostur almennings. Samtökin gera þó ekki athugasemdir við þær viðskiptaákvarðanir sem Stöð 2 hefur tekið. 

Sambandið segir fjölskipt og fjölbreytt fjölmiðlakerfi á Norðurlöndum og í Norður- og Vestur-Evrópu mikilvægan þátt í eflingu lýðræðis í þeim löndum og því eðlilegt og æskilegt að stjórnvöld á Íslandi og lýðræðislegar stofnanir geri að forgangsmáli að standa vörð um slík grundvallarkerfi við þróun fjölmiðlalandslagsins í framtíðinni.

Handboltinn er vinsæll

Heimsmeistaramótið í handbolta var mjög vinsælt hjá áhorfendum í vikunni en fjórir af tíu vinsælustu dagskrárliðum RÚV voru handboltaleikir með uppsafnað áhorf frá 33 til ríflega 35%. Auk þess var meðaláhorf á íþróttafréttir RÚV 25,3% en meðaláhorf á íþróttir Stöðvar 2 er 6,5%.

Í aldurshópnum 12 til 49 var mest horft á lokaleik Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik gegn Noregi, sunnudaginn 24. janúar. Uppsafnað horfðu 22,5% á leikinn en sambærilegt áhorf þessa aldurshóps á fréttir RÚV í vikunni er 18,7%. 

Mikið áhorf á skemmtiþætti stöðvanna

Mikið var hoft á Gettu betur-stjörnustríð og Vikuna með Gísla Marteini föstudaginn 22. janúar og Kveik daginn áður þar sem fjallað var um andlát 19 ára stúlku.

Fjölskyldubingó laugardagskvöldið 23. janúar er vinsælasti einstaki dagskrárliður Stöðvar með 7% meðaláhorf en mest uppsafnað áhorf, eða níu prósent, er á þáttinn Í kvöld er gigg sem var á dagskrá kvöldið áður.

Fréttir Stöðvar 2 eru í öðru sæti á eftir Fjölskyldubingói hjá aldurshópnum 12 til 49 ára eða 23,9% uppsafnað.

Aðferðafræðin við áhorfskönnun Gallup

Gallup beitir svokallaðri PPM mælitækni við að greina hljóðmerki sem komið er fyrir í útsendingum mældra sjónvarps- og útvarpsstöðva. Mannseyrað greinir merkið ekki en það er falið í útsendingunni.

Það eru um 500 manns á aldrinum 12-80 ára sem bera PPM-mælitækið á sér yfir daginn en tækið skráir hvenær horft er eða hlustað á hverja stöð og á hverri nóttu eru gögnin send til Gallup.

Fréttin var uppfærð 29.1. klukkan 12:04