
Vilja að samgöngur til Fjallabyggðar verði bættar
Ekki sé hægt að sætta sig við að fram undan séu að óbreyttu áratugir án úrbóta í samgöngumálum sveitarfélagsins. Hefjast þurfi handa nú þegar við undirbúning nauðsynlegra framkvæmda við að leysa af hólmi veginn um Ólafsfjarðarmúla og veginn um Almenninga.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir viðvarandi snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla hafa valdið því að leiðin hafi verið lokuð í meira en 30 daga í fyrra. „Það er slæmt, sérstaklega fyrir íbúa Fjallabyggðar.“
Rætt var við Katrínu Sigurjónsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun um ástandið í hennar sveitarfélagi. Mikið fannfergi hefur verið víða á landinu undanfarið, leiðindaveður og óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norður- og Austurlandi sem og norðanverðum Vestfjörðum.
„Við höfum sem betur fer ekki verið með snjóflóðahættu sem hefur ógnað byggð hjá okkur en auðvitað er þetta viðvarandi alltaf í Ólafsfjarðarmúla á milli gangamunnans til Fjallabyggðar og Dalvíkur. Það hefur valdið því að það er oft lokað og ég man ekki hvað það voru margir dagar í fyrra, eitthvað yfir 30 dagar, sem var lokað þessi leið. Það er slæmt, sérstaklega svo sem fyrir íbúa Fjallabyggðar.“