Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vatnsendamáli ekki lokið þrátt fyrir Hæstaréttarúrskurð

27.01.2021 - 10:33
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: RÚV - Dreifikeri
Hvergi sér fyrir endann á svokölluðu Vatnsendamáli þrátt fyrir synjun Hæstaréttar nú í vikunni um leyfi til áfrýjunar tveggja mála því tengdu. Málið á sér forsögu sem nær áratugi aftur í tímann.

Bæði Héraðsdómur og Landsréttur höfðu í öðru málinu, sem Hæstiréttur vísaði frá, hafnað kröfu erfingja um að farið væri með dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti. Skiptastjóri hafði þá afstöðu að farið skyldi með búið sem væri það gjaldfært.

Hitt málið sneri að kröfu erfingja í dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested um að beinn eignarréttur yfir Vatnsenda yrði afhentur með þeim  skilyrðum og takmörkunum sem erfðaskrá Magnúsar E. Hjaltested úrsmiðs frá árinu 1938 innihélt.

Héraðsdómur hafnaði kröfunni og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu.

Krafan nærri tveir milljarðar króna

Að sögn Jóns Auðuns Jónssonar, skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, hefur Kópavogsbær skotið niðurstöðu héraðsdóms sem féll fyrir jól, til Landsréttar.

Þar var bærinn dæmd­ur til að greiða dán­ar­búi Sig­urðar 968 millj­ón­ir króna vegna eign­ar­náms bæj­ar­ins í landi Vatns­enda á ár­inu 2007 auk vaxta frá 2010. Samtals hljóðar dómkrafan í dag upp á tæpa tvo milljarða.

Að sögn Jóns Auðuns eru óbein eignarréttindi jarðarinnar á hendi sonar Þorsteins Hjaltested á grundvelli erfðaskrár Magnúsar E.  Hjaltested frá árinu 1938. 

Bein eignarréttindi jarðarinnar eru hins vegar á hendi dánarbús Sigurðar Hjaltested sem lést 1966 og eiga að skiptast milli lögerfingja hans. Deilan sem nú er komin til Landsréttar snýst um hvorum þessara aðila eigi að greiða eignarnámsbætur og ef þær eiga að skiptast í hvaða hlutfalli það eigi að vera.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV