Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tók spretthlaup yfir Austurvöll og náði móður í pontu

Mynd: Alþingi (skjáskot) / Alþingi
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, átti góðan sprett í dag þegar hann var staddur á fimmtu hæð nefndarsviðs Alþingis og áttaði sig allt í einu á að hann væri næstur á mælendaskrá í störfum þingsins. Þorsteinn hljóp út af nefndarsviði, yfir Austurvöll, inn í þinghúsið og upp í pontu til að taka þátt í umræðunum og náði að flytja erindi sitt, þótt móður væri, enda mátti hann engan tíma missa.

„Maður er náttúrulega í aðhaldi”

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kallaði Þorstein upp sem síðastan á mælendaskrá og beið í dágóða stund eftir þingmanninum, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan. 

Þorsteinn baðst afsökunar á að mæta svona móður í ræðustól, en hann hafði ekki áttað sig á að hann hafði náð á dagskrána. Í samtali við fréttastofu sagðist Þorsteinn hafa vakið töluverða athygli viðstaddra þegar hann hljóp eins hratt og hann gat frá fimmtu hæðinni á nefndarsviði Alþingis og yfir Austurvöll. „Maður er náttúrulega í aðhaldi,” segir hann og bætir við að vonandi hafi þó ræða hans komist til skila. 

Ræddi um stöðu krabbameinsskimana

Þorsteinn gerði heilbrigðiskerfið og skimanir fyrir krabbameinum að umtalsefni. „Heilbrigðiskerfið á Íslandi er smátt og smátt að molna niður af mannavöldum. Nú sem aldrei fyrr er pólitísk rétttrú orðin þannig að hún er farin að ógna lífi,” sagði hann. Margar konur á Íslandi væru nú að bíða eftir að fá niðurstöður úr skimunum eða að komast í myndatökur vegna legháls- eða brjóstakrabbameins og það sé ólíðandi. Ástæðan, segir Þorsteinn, er tilfærsla skimana til heilsugæslunnar og spítalans frá Krabbameinsfélaginu. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður