Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reynt að mynda nýja ríkisstjórn á Ítalíu

27.01.2021 - 22:14
epa08968061 Italian Prime Minister Giuseppe Conte leaves the house to go to the Quirinale and meet with the President of the Italian Republic Sergio Mattarella, in Rome, Italy, 27 January 2021.  EPA-EFE/Riccardo Antimiani
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ósætti um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum hafa leitt til stjórnarslita á Ítalíu. Forsætisráðherra landsins sagði af sér í gær, en samt er ekki enn ljóst hvort hann lætur af embætti.

 

Ríkisstjórn Ítalíu hefur hangið á bláþræði frá því flokkurinn Italia Viva, með Matteo Renzi í fararbroddi, sagði sig úr stjórnarsamstarfinu með Fimmstjörnubandalaginu og jafnaðarmannaflokknum PD fyrir tveimur vikum. Ástæðan var að flokkurinn vildi setja meiri kraft í efnahagsumbætur vegna Covid 19 faraldursins. Renzi sagði við það tækifæri að í raun hefði verið pólitísk kreppa mánuðum saman - hans flokkur væri ekki að hefja hana núna eins og gagnrýnendur hans héldu fram.

Skömmu síðar var Langbarðaland, sem fór hvað verst út úr faraldrinum í fyrravor, fyrir mistök gert að rauðu svæði, sem þýðir hörðustu sóttvarnaaðgerðir, þó að skilyrðin fyrir því væri ekki fyrir hendi. Það vakti litla hrifningu á héraðsþinginu þar.

Þetta kom frekara höggi á Conte, sem tókst ekki að tryggja stjórninni stuðning. Hann gekk því á fund forseta Ítalíu í gær og baðst lausnar. Hann gegnir þó embættinu áfram þangað til ný stjórn hefur verið mynduð.

Conte, sem er ekki sjálfur í stjórnmálaflokki en var valinn í embættið af stjórnarflokkunum, hefur einu sinni áður verið í þessari stöðu á kjörtímabilinu en tókst þá að mynda nýja stjórn. Það er því ekki víst að Conte láti af störfum nú.

Roberto D'Alimonte prófessor í stjórnmálafræði segir tvo kosti líklegasta „Annars vegar ríkisstjórn með bæði Conte og Renzi innanborðs og hins vegar ríkisstjórn án Conte en með Renzi.” Miðað við þetta hefur sá sem í raun sleit stjórnarsamstarfinu það í hendi sér hvort Conte verður áfram forsætisráðherra. 

Mattarella forseti ræðir nú við flokksleiðtoga um myndun nýrrar stjórnar.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV