Ríkisstjórn Ítalíu hefur hangið á bláþræði frá því flokkurinn Italia Viva, með Matteo Renzi í fararbroddi, sagði sig úr stjórnarsamstarfinu með Fimmstjörnubandalaginu og jafnaðarmannaflokknum PD fyrir tveimur vikum. Ástæðan var að flokkurinn vildi setja meiri kraft í efnahagsumbætur vegna Covid 19 faraldursins. Renzi sagði við það tækifæri að í raun hefði verið pólitísk kreppa mánuðum saman - hans flokkur væri ekki að hefja hana núna eins og gagnrýnendur hans héldu fram.
Skömmu síðar var Langbarðaland, sem fór hvað verst út úr faraldrinum í fyrravor, fyrir mistök gert að rauðu svæði, sem þýðir hörðustu sóttvarnaaðgerðir, þó að skilyrðin fyrir því væri ekki fyrir hendi. Það vakti litla hrifningu á héraðsþinginu þar.
Þetta kom frekara höggi á Conte, sem tókst ekki að tryggja stjórninni stuðning. Hann gekk því á fund forseta Ítalíu í gær og baðst lausnar. Hann gegnir þó embættinu áfram þangað til ný stjórn hefur verið mynduð.
Conte, sem er ekki sjálfur í stjórnmálaflokki en var valinn í embættið af stjórnarflokkunum, hefur einu sinni áður verið í þessari stöðu á kjörtímabilinu en tókst þá að mynda nýja stjórn. Það er því ekki víst að Conte láti af störfum nú.
Roberto D'Alimonte prófessor í stjórnmálafræði segir tvo kosti líklegasta „Annars vegar ríkisstjórn með bæði Conte og Renzi innanborðs og hins vegar ríkisstjórn án Conte en með Renzi.” Miðað við þetta hefur sá sem í raun sleit stjórnarsamstarfinu það í hendi sér hvort Conte verður áfram forsætisráðherra.
Mattarella forseti ræðir nú við flokksleiðtoga um myndun nýrrar stjórnar.