Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lyfjastofnun greip til aðgerða vegna Flixabi árið 2019

27.01.2021 - 11:24
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Lyfjastofnun greip til aðgerða árið 2019, vegna fjölda tilkynninga um aukaverkanir af lyfinu Flixabi. Lyfið er samt sem áður talið jafnöruggt og önnur sambærileg lyf. Enginn ákveðinn fjöldi tilkynninga leiðir til þess að stofnunin grípi til aðgerða.

Lyfjastofnun hafa borist 62 tilkynningar um aukaverkanir af lyfinu Flixabi. Í fréttum sjónvarps á laugardag var rætt við Írisi Hafþórsdóttur sem fékk lyfið í tvígang og þjáðist af margvíslegum aukaverkunum í tíu mánuði. Hún fær hins vegar engar aukaverkanir af frumlyfinu, sem er dýrara. Um 600 manns nota Flixabi hér á landi.

Í svörum Lyfjastofnunar við fyrirspurn fréttastofu segir meðal annars að fjöldi tilkynninga um aukaverkanir segi ekki einn og sér til um tíðni aukaverkana. Þessi fjöldi tilkynninga um Flixabi hafi þó leitt til þess að Lyfjastofnun og Miðstöð lyfjaupplýsinga á Landspítalanum hafi skoðað tilkynningar vegna Flixabi sérstaklega árið 2019, birt grein um málið í Læknablaðinu og haft samband við lækna sem ávísuðu líftæknilyfjum.

Lyfjastofnun bendir enn fremur á að nokkrir þættir geti skýrt það hvers vegna svo margar tilkynningar hafi borist vegna Flixabi. Í fyrsta lagi aukið eftirlit, í öðru lagi hvatning til fólks um að tilkynna aukaverkanir og í þriðja lagi sú staðreynd að margir sjúklingar byrjuðu að nota Flixabi á sama tíma.

Þá segir í svari Lyfjastofnunar að enginn ákveðinn fjöldi tilkynninga leiði til þess að gripið sé til aðgerða. Ef í ljós kæmi að áhætta af notkun lyfs væri meiri en ávinningur yrði lyfið tekið af markaði. Ekki hafi komið fram upplýsingar um að meiri áhætta fylgi Flixabi en öðrum sambærilegum lyfjum. Loks kemur fram í svarinu að engin tilkynning um langvarandi aukaverkun vegna Flixabi hafi borist Lyfjastofnun. 

4-5 sinnum meira notað af Flixabi

Hér að neðan má sjá spurningar fréttastofu og svör Lyfjastofnunar við þeim í heild sinni:

62 tilkynningar um aukaverkanir, er það mikið eða lítið?

„Fjöldi tilkynninga um aukaverkanir segir ekki einn og sér til um tíðni aukaverkana af völdum lyfs eða merkja í sjálfu sér að áhætta af notkun þess sé meiri en áður hafði verið talið. Fyrst eftir mat tilkynninganna er hægt að segja til um tíðni. Fjölda aukaverkanatilkynninga þarf einnig að skoða í samhengi við fjölda þeirra sem nota viðkomandi lyf. Lyfjastofnun hefur ekki nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra sem nota infliximab lyf. Hins vegar benda sölutölur til þess að um 4-5 sinnum meira sé notað af Flixabi en Remicade síðan Flixabi kom á markað 2019.

Þessi fjöldi aukaverkanatilkynninga leiddi engu að síður til þess að Lyfjastofnun og Miðstöð lyfjaupplýsinga á Landspítala skoðuðu tilkynningar vegna Flixabi sérstaklega á sínum tíma (2019) og birtur var pistill í Læknablaðinu.  Einnig var haft samband við lækna sem ávísuðu líftæknilyfjum.

Benda má á að nokkrir þættir geta hafa haft áhrif á fjölda tilkynninga vegna Flixabi:

Aukið eftirlit á síðari tímum 
Eins og fram hefur komið er Flixabi merkt Svarta þríhyrningnum og þannig undir sérstöku eftirliti samkvæmt leiðbeiningum um sérstakt eftirlit með lyfjum sem tóku gildi árið 2013. Það eftirlit sem fylgir Svarta þríhyrningnum á ekki bara við um Flixabi heldur gildir um öll ný lyf og öll líftæknilyf. Þetta er gert til að nýjar upplýsingar um öryggi þeirra komist fljótt til skila. Svarti þríhyrningurinn felur eingöngu í sér sérstaka hvatningu til að aukaverkanir séu tilkynntar svo hægt sé að safna upplýsingum eins hratt og auðið er. Hann merkir ekki að lyf merkt honum séu álitin hættulegri en önnur sambærileg lyf. Þetta sérstaka eftirlit var ekki til staðar þegar Remicade kom fyrst fram og það er m.a. ástæðan fyrir því að heildartölur um tilkynntar aukaverkanir fyrir Remicade og Flixabi eru ekki sambærilegar.

Hvatning til að tilkynna aukaverkanir
Ísland hefur verið eftirbátur flestra landa í tilkynningum aukaverkana og því hefur Lyfjastofnun verulega hvatt bæði heilbrigðisstarfsfólk og almenning síðustu ár til að tilkynna aukaverkanir lyfja. Liggur þar að baki að aukaverkanatilkynningar eru nauðsynlegar til að hægt sé að endurmeta öryggi lyfja. Þannig er hægt að sjá hvort tilkynntar aukaverkanir séu í takt við þekktar aukaverkanir (í lyfjatextum) en einnig hvort um sjaldgæfar, áður óþekktar og/eða alvarlegar aukaverkanir sé að ræða.

Skipt um lyf hjá mörgum á skömmum tíma
Hvað Flixabi varðar var skipt um lyf hjá mörgum sjúklingum á stuttum tíma og því ekki óeðlilegt að töluverður fjöldi tilkynninga fylgdi í kjölfarið. Tilkynningarnar komu flestar fyrst eftir að notkun Flixabi hófst, en hið sama á við um Remicade. Sjá skýringarmyndir

Fyrir Flixabi hafa engar aukaverkanir verið tilkynntar síðan á fyrsta ársfjórðungi 2020, sjá hér dreifingu tilkynninga fyrir Flixabi:

Mynd með færslu
 Mynd: Lyfjastofnun

Til samanburðar sést hér að Remicade-tilkynningarnar komu flestar inn í byrjun en þeim fækkar svo með tímanum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lyfjastofnun

Öryggi í stöðugu mati

Berast almennt tilkynningar um aukaverkanir af öllum lyfjum?

„Já. Hins vegar er vitað að mikill fjöldi aukaverkana er aldrei tilkynntur til Lyfjastofnunar. Síðastliðin ár hefur markvisst verið kallað eftir að almenningur og heilbrigðisstarfsfólk tilkynni um aukaverkanir til Lyfjastofnunar. Sjá frétt um tilkynningar aukaverkana þar sem m.a. sjá má samanburð á fjölda tilkynntra aukaverkana milli áranna 2018 og 2020.“

Hversu margar tilkynningar um aukaverkanir þurfa að berast til þess að Lyfjastofnun grípi til aðgerða eins og að taka viðkomandi lyf af markaði?

„Öryggi allra lyfja á markaði er í stöðugu mati hjá Lyfjastofnun í samstarfi við Lyfjastofnun Evrópu. Eins og áður sagði segir fjöldi tilkynninga um aukaverkanir einn og sér segir ekki til um tíðni aukaverkana af völdum lyfs eða um öryggi þess. Fyrst eftir mat tilkynninganna er hægt að segja til um orsakasamband. Að sama skapi er enginn ákveðinn fjöldi sem leiðir til þess að gripið sé til aðgerða að hálfu Lyfjastofnunar. Fáar tilkynningar með greinargóðum upplýsingum um nýjar og/eða mögulegar  aukaverkanir geta gefið tilefni til nánari skoðunar. Ef matið yrði á þann veg að áhætta af notkun lyfs væri meiri en ávinningur yrði það tekið af markaði.

Í sameiginlegu eftirlitsferli lyfjastofnana í Evrópu vegna tilkynninga um aukaverkanir* hafa ekki komið fram upplýsingar um að meiri áhætta fylgi Flixabi en öðrum infliximab lyfjum. Þær tilkynningar sem borist hafa um aukaverkanir vegna Flixabi eru í samræmi við upplýsingar sem hafa komið fram í samantekt á eiginleikum lyfs og fylgiseðli lyfsins.

*Allar tilkynningar sem berast Lyfjastofnun eru skoðaðar. Tilkynningarnar eru sendar áfram í evrópskan gagnagrunn, Eudravigilance. Tilkynningarnar eru hluti af þeim upplýsingum sem lyfjastofnanir í Evrópu nota til eftirlits með ávinningi og áhættu af lyfjum eftir að þau hafa fengið markaðsleyfi, og þannig er öryggi lyfja í sífelldri endurskoðun.“

Mikilvægt að tilkynna aukaverkanir

Verður þetta tiltekna lyf skoðað sérstaklega eftir þessa umfjöllun?

„Eins og fram kemur í svari við spurningunni að ofan er öryggi lyfsins metið reglubundið með samantekt á nýjum upplýsingum um áhættu og ávinning af notkun þess. Niðurstaða úr síðasta mati árið 2018 var sú að hlutfallið milli ávinnings og áhættu af notkun lyfsins væri óbreytt og að skilyrði markaðsleyfis skyldu vera óbreytt. Fyrir liggur að öryggi og ávinningur Flixabi verði næst skoðað um mitt þetta ár hjá Lyfjastofnun Evrópu, en þar eiga sérfræðingar Lyfjastofnunar sæti. Þá verður farið yfir aukaverkanatilkynningar allra infliximab lyfja sem hafa borist til lyfjastofnana í Evrópu, auk allra annarra upplýsinga sem hafa borist varðandi öryggi lyfsins.

Auk þessa geta lyfjastofnanir beðið um rannsókn á ákveðnum aukaverkunum lyfs, utan reglubundins mats, ef innsendar aukaverkanatilkynningar gefa tilefni til þess.“

Hver eru almenn viðbrögð ykkar við þessari frétt?

„Mikilvægt er að aukaverkanir lyfja séu tilkynntar til að hægt sé að taka þær með í reglulegu endurmati lyfja. Allir geta tilkynnt um aukaverkun lyfs, almenningur jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk.

Engin tilkynning um langvarandi aukaverkun vegna Flixabi hefur borist Lyfjastofnun. Við viljum hvetja til þess að viðkomandi tilfelli verði tilkynnt sem aukaverkun. Það tryggir að langvarandi aukaverkun skili sér til mats þegar öryggi Flixabi verður metið. -Og eins og fram kom hér að ofan hafa engar tilkynningar vegna lyfsins borist frá fyrsta ársfjórðungi 2020. 

Öllum lyfjum getur fylgt hætta á aukaverkunum, aukaverkanir sem eru þekktar hjá hverju lyfi eru taldar upp í fylgiseðli þess. Þær aukaverkanir sem lýst er í umræddri frétt, „liðverkir, vöðvaslen, þreyta, hiti, beinverkir, þreyta í augun og endurteknar sýkingar“ höfðu komið fram í rannsóknum, eru þekktar og algengar, og þeirra er því getið  í fylgiseðlum allra lyfja sem innihalda virka efnið infliximab; á Íslandi eru á markaði lyfin Remicade, Flixabi, Inflectra og Remsima (lyfjaheitin innihalda hlekk inn á nánari upplýsingar þessara lyfja).“

Getur lyfjastofnun gefið upplýsingar um verðmun á þessu lyfi og frumlyfinu?

„Rétt er að leita til Landspítala með þessa spurningu þar sem um útboðslyf er að ræða.“