Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lagið frumflutt 13. mars — Keppnishugur í Daða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lagið frumflutt 13. mars — Keppnishugur í Daða

27.01.2021 - 12:52

Höfundar

Lag Daða Freys Péturssonar, sem keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision í Rotterdam í maí, verður frumflutt í nýjum sjónvarpsþætti á RÚV 13. mars. Daði segist stefna á sigur.

Daði og Gagnamagnið áttu að keppa í Rotterdam í fyrra, en vegna heimsfaraldurs var hætt við keppnina. Þegar forsvarsmenn keppninnar gáfu út yfirlýsingu um að keppnin yrði haldin í maí á þessu ári hafði Ríkisútvarpið samband við Daða Frey. Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri RÚV, segir að RÚV hafi viljað gefa Daða annað tækifæri til að gera garðinn frægan í keppninni stóru. Daði tók boðinu og leggur nú lokahönd á lagið sem verður frumflutt 13. mars. 

Keppnishugur í Daða og Gagnamagninu

Að óbreyttu flytur Daði lagið, ásamt Gagnamagninu, í Rotterdam 20. maí og úrslitakeppnin verður svo 22. maí. Það er keppnishugur í Daða:

„Þetta er keppni svo við förum með það hugarfar að vinna þetta. Mest áhersla er sett á að komast áfram í úrslitakeppnina svo það geti verði gott partý hérna á laugardeginum. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að keppa í keppni ef maður ætlar ekki að gá hvort maður geti unnið sko,“ segir Daði í samtali við fréttastofu. 

Öllu tjaldað til í ár

Daði og félagar vinna nú hörðum höndum að undirbúningi. Lagið fer í lokahljóðblöndun á næstu dögum, búningar og sviðsetning eru í undirbúningi og framundan er gerð tónlistarmyndbands sem frumsýnt verður í lok mars. Einnig stendur til að gefa út tölvuleik þar sem Daði og Gagnamagnið verða í lykilhlutverki.

Daði segir að það sé öðruvísi tilfinning að semja lag sem hann veit að verður framlag Íslands: „Við vitum að við förum í alvöru keppnina svo það er hægt að réttlæta að setja allt í þetta. Ég er með margt tilbúið sem ég var ekki með síðast. Maður getur planað hluti lengra fram í tímann í stað þess að fara í forkeppnina án þess að vita hvort við förum áfram,“ segir hann.

Lagið Think about things sló rækilega í gegn í fyrra og hefur nú verið spilað um 66 milljón sinnum á tónlistarveitunni Spotify. Eurovision-heimurinn bíður með mikilli eftirvæntingu eftir nýju lagi Daða en honum er nú þegar spáð efstu sætunum í veðbönkum ytra.

Tveir nýir þættir framundan á RÚV

Tveir nýir þættir eru á dagskrá á RÚV. Þann 27. febrúar og 6. mars verða sýndir heimildarþættir um sögu Daða og Gagnamagnsins og ævintýri þeirra félaga allt frá því lagið What Is Love? (Hvað með það?) lenti í öðru sæti í Söngvakeppninni 2017. Í þáttunum verður einnig fjallað um gott gengi lagsins Think About Things og þá athygli sem Daði Freyr hefur fengið síðan. Leikstjórinn og framleiðandinn Fannar Sveinsson sér um gerð þáttanna ásamt Benedikt Valssyni.

Þann 13. mars hefja svo göngu sína nýir tónlistar- og skemmtiþættir á laugardagskvöldum. Þættirnir bera heitið Straumar og fjalla um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum. Fjallað verður um hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni og þar má nefna eitístímabilið, Bítlaæðið, diskóæðið og Eurovision-fárið sem hefur staðið yfir með hléum frá árinu 1956.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Umsjónarmenn þáttanna verða þau Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson og tónlistarstjóri verður Guðmundur Óskar Guðmundsson. Fyrsti þáttur Strauma fjallar um Eurovision-keppnirnar í áranna rás og þar verður lag Daða Freys frumflutt.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði undirbýr Eurovision: „Ég ætla að reyna að vinna“

Popptónlist

Daði Freyr á toppi Rásar 2 árið 2020