Vissi að hann væri að missa vinnuna
Snorri Már vann í fjölmiðlum nánast óslitið frá 1983-2007. Síðustu þrjú árin var hann verkefnastjóri yfir enska boltanum hjá Skjá einum. „Þetta var frábær tími sem ég átti,“ segir Snorri. Um aldamót 2006-7 bauð Stöð 2 svo rausnarlega í sýningarréttinn að það varð ljóst að Skjár einn gæti ekki haldið honum. „Ég vissi að ég væri að missa vinnuna um vorið þegar tímabilið kláraðist.“
Sjálfsmorðssprengjur og morð á götum úti
Snorri fór að skima í kringum sig eftir nýjum tækifærum. Á þessum tíma starfaði Þorfinnur Ómarsson, félagi Snorra, fyrir friðargæsluna á Sri Lanka og hvatti vin sinn til að sækja um. Snorri sótti um og var ráðinn til að starfa við vopnaeftirlitsstörf frá júní 2007 og út árið. „Það var rosalegur tími. Bæði átakanlegur en gríðarlega lærdómsríkur líka.“
Í nánast hverri viku var Snorri Már sendur á vettvang mannskæðra árása og morða, „þar sem gerð hafði verið sprengjuárás, menn teknir af lífi úti á götu eða sjálfsmorðssprengjuaðilar með sprengjubelti um sig miðja höfðu sprengt sig í loft upp á fjölförnum stöðum.“ Það var í höndum Snorra og samstarfsmanna hans að fara á vettvang, skrifa skýrslur og taka myndir. „Þetta var mjög erfitt en það kenndi manni svo margt í leiðinni.“
Með þrjú ungbörn, alein í moldarkofa
Honum er sérstaklega minnisstætt þegar hann hitti fyrir móður með börn sem nýverið hafði misst manninn sinn í átökum. „Hún var með tvö ungabörn í fanginu og eitt aðeins minna á moldargólfi, hún bjó í moldarkofa. Hvernig ætlaði þessi kona að komast af?“ Menn lögðu hart að sér við að koma konunni til hjálpar en reynslan af því að kynnast henni og þeim aðstæðum sem hún bjó við sat lengi í Snorra. „Þetta var nánast átakanlegra en að sjá lík sem hafði verið skotið eða sprengt. Hver er framtíðin fyrir svona fólk?“
Síðar hitti hann aðra móður með þriggja mánaða barn sem var hætt að geta mjólkað vegna streitu. Snorri fór í búð og keypti mjólkurduft og færði henni en vissi að það myndi ekki endast henni eins lengi og barnið þyrfti. „Þetta dugði kannski í tíu daga. Þetta er átakanlegt, manni fallast hendur og það er lítið sem maður getur gert,“ segir hann.
Líkið þátttakandi í óhugnarlegri líkvöku
Eina nóttina vaknaði hann um miðja nótt við að það var haldin líkvaka í næsta húsi og hann heyrði mikinn og ofsafenginn söng og grátur berast þaðan. Það sem gerði slíkar kveðjustundir helst sérstakar var að á meðan á henni stóð var sá látni viðstaddur, eða líkami hans. „Þá stóð líkið uppi í stofu,“ lýsir Snorri. „Þetta var bara þeirra leið að kveðja en manni fannst þetta mjög svona, skerí.“
Frjósöm og falleg paradísareyja
Árinu síðar, 2008, voru allir friðargæsluliðar sendir úr landinu og heim því ríkisstjórnin kvaðst ekki geta ábyrgst öryggi þeirra lengur. „Svo liðu bara tveir, þrír mánuðir. Þá gerði stjórnarherinn áhlaup og ég veit að Sameinuðu þjóðirnar hafa verið að skoða þetta sem hugsanlegt þjóðarmorð.“
Þó reynslan hafi verið þungbær á köflum lýsir hann landinu sem ótrúlega fjósamri og fallegri paradísareyju. „Maður hefur á tilfinningunni að ef ég væri með fræ í hendi og myndi missa það í jörðina, að ég gæti komið eftir viku og þá væri komið tré. „Þess vegna er sorglegt að frá árinu 1964 hafi verið átök. Það hefur hægst á þeim síðan 2008 en Tamílarnir eru ekkert farnir, þeir eru þarna enn að hugsa sitt.“
Þegar heim var komið þáði Snorri sálfræðiaðstoð því hann fann að hann þurfti mikið á því að halda að tala um atburðina til að vinna úr þeim. „En það var líka hjálp í að hafa samstarfsfólkið með sér þegar maður hafði lengt í einhverju erfiðu. Þá var sest niður og talað fram á nótt,“ rifjar hann upp. „Ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að upplifa svona hluti en svona er það nú samt. Svona er lífið.“
Fór í meðferð þegar partíið súrnaði
Snorri komst að því árið 2002, eftir að hafa neytt áfengis árum saman, að það væri byrjað að súrna í partíinu. Hann fór í meðferð árið 2002 og tókst að vera edrú í tvö og hálft ár. Eftir þann tíma taldi hann sér trú um að hann væri enginn alki og gæti alveg fengið sér við og við. Árið 2012 áttaði hann sig endanlega á því að hann væri með mikið óþol fyrir áfengi. „Ég varð alltaf rosalega þunglyndur daginn eftir. Ég drakk ekki mikið en var greinilega með alvöru ofnæmi fyrir því,“ segir hann.
Tengir sig inn á æðri mátt
Hann fór að mæta aftur á fundi og hefur mætt reglulega allar götur síðan, og lagt flöskuna alfarið á hilluna. Hann reynir líka að hjálpa öðru fólki með áfengisvanda í sinni baráttu, mætir á fundi, biður og hefur gefið sig æðri mætti á vald. „Ég þarf að tengjast mínum æðri mætti. Ég þarf ekki að skilja hver hann er, það er margt sem ég skil ekki,“ segir hann. Það sé hverjum í sjálfvald sett að túlka sinn æðri mátt á þann hátt sem hann sjálfur kýs.
„Fyrir mér snýst þetta um að stilla sig inn. Ég þarf að tengja mig inn á æðri mátt, ég veit ekki hver hann er og hvernig hann virkar en ég veit að hann virkar þegar ég er tengdur,“ segir hann. „Og ég fæ svo oft sönnun á því að það er ótrúlegt. Ég trúi ekki á tilviljanir, það er eitthvað æðra að störfum.“
Var hræddur við einmanaleikann
Snorri skildi árið 2019 og var uggandi yfir því sem framtíðin bæri í skauti sér í kjölfarið. „Ég verð að játa að ég var hræddur við einmanaleikann. Ég skildi árið 2019 eftir níu ára samband og það var mikið áfall. Ég átti ekki von á því, en það var óttinn sem greip mig fyrst,“ segir hann. Hann var 54 ára og óttaðist að daga uppi einn í íbúðinni sinni.
Hann ákvað svo að sleppa tökunum af áhyggjunum, demba sér meira í tólf spora vinnuna og einbeita sér að því að standa sig í vinnu og gagnvart börnum og fjölskyldu. Og ekki leið á löngu áður en hann kynntist konunni sem er konan hans í dag, Margréti Sæmundsdóttir. „Það fór í gang ferli sem mér fannst of ótrúlegt til að það væri verið tilviljun, enda þær ekki til,“ segir hann.
Sendi vinabeiðni en skammaðist sín og eyddi henni aftur
Snorri rak augun í mynd af konu á Facebook sem hann þekkti ekkert. Hún var að koma í mark í maraþoni, stekkur upp með hönd á lofti að fagna sigri yfir sjálfri sér eftir vel heppnað hlaup. Af einhverjum ástæðum laust þeirri hugmynd strax í kollinn á Snorra að svona konu gæti hann hugsað sér. Hann gerði svolítið, sem hann hefur ekki lagt í vana sinn fyrr eða síðar, sendi henni vinabeiðni.
Hittust á kaffihúsi og hafa verið saman síðan
Viku síðar þegar konan hafði enn ekki svarað vinabeiðninni tók hann hana skömmustulegur út og gleymdi þessu. „Ég náði að sleppa tökunum, hætti að pæla í þessu og þá fóru skrýtnir hlutir að gerast.“ Nokkrum mánuðum síðar fékk hann póst frá konunni sem spurði hvort það væri rétt munað að hann hefði sent sér vinabeiðni og hvort hann væri til í að senda hana aftur. „Í framhaldi af þessum hittumst við á kaffihúsi, spjölluðum saman og fundum að það var eitthvað þarna. Síðan hefur hún verið hluti af mínu lífi og togað mig úr mínum þægindaramma trekk í trekk,“ segir Snorri Már að lokum.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Snorra Má Skúlason í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.